Zoran Djindjic, forsætisráðherra Serbíu (t.h.), fagnar endalokum Júgóslavíu ásamt Dragisa Pesic (t.v.), forsætisráðherra Júgóslavíu, sem nú er embættislaus.
Zoran Djindjic, forsætisráðherra Serbíu (t.h.), fagnar endalokum Júgóslavíu ásamt Dragisa Pesic (t.v.), forsætisráðherra Júgóslavíu, sem nú er embættislaus.
ÞAÐ var ekki mikið um það fjallað í fréttum en sambandsríkið Júgóslavía leið undir lok fyrir nokkrum dögum þegar þing þess samþykkti að framvegis skuli lýðveldin Serbía og Svartfjallaland, sem saman mynduðu Júgóslavíu, aðeins vera í lauslegu...

ÞAÐ var ekki mikið um það fjallað í fréttum en sambandsríkið Júgóslavía leið undir lok fyrir nokkrum dögum þegar þing þess samþykkti að framvegis skuli lýðveldin Serbía og Svartfjallaland, sem saman mynduðu Júgóslavíu, aðeins vera í lauslegu ríkjasambandi. Samningur þess efnis er til þriggja ára og flestir telja líklegt að full sambandsslit komi til að þeim tíma liðnum.

Lengstum var Júgóslavía skipuð sex lýðveldum (auk tveggja sjálfstjórnarhéraða, Kosovo og Vojvodina). Króatía, Slóvenía, Makedónía og Bosnía-Herzegóvína sögðu hins vegar skilið við Júgóslavíu í upphafi síðasta áratugar og ættu raunar flestir að muna þá atburði, því sannarlega settu Júgóslavíustríðin 1991-1995 og 1998-1999 svip sinn á fréttatíma vestrænna fjölmiðla. Raunar má segja að þeir hafi einokað fyrirsagnir dagblaðanna.

Kannski er það einkum með þetta í huga sem Víkverja finnst það pínulítið kaldhæðnislegt að sagt skuli hafa verið frá endalokum Júgóslavíu í lítilli tveggja dálka frétt á bls. 16 í Morgunblaðinu fyrir tæpum tveimur vikum. Svona er veröldin skrýtin.

AUGLÝSING sem birtist í Morgunblaðinu fyrir rúmri viku vakti athygli Víkverja. Spurt var í fyrirsögn: Ert þú með fótaóeirð?

Forvitni Víkverja hafði verið vakin og hann velti fyrir sér hvað hér gæti eiginlega verið á ferðinni. Orðið fótaóeirð hljómaði eitthvað skringilega. Víkverji sá sig því knúinn til að lesa áfram, en næsta spurning í auglýsingunni hljómaði svona: Finnur þú oft fyrir mikilli löngun til að hreyfa fæturna þegar þú situr kyrr eða liggur?

Nei, heyrðu mig nú, hugsaði Víkverji; hvað er hér á ferðinni? Er verið að gera grín?

Á DAGINN kemur hins vegar að hér er full alvara að baki. Auglýsingin var frá Íslenskri erfðagreiningu og samstarfslæknum á Landspítala - háskólasjúkrahúsi, sem óska eftir þátttakendum í umfangsmikilli rannsókn á erfðum og faraldsfræði fótaóeirðar. Kemur fram í auglýsingunni að fótaóeirð (e. Restless Leg Syndrome) sé algengur kvilli sem hrjái 5-10% Vesturlandabúa. Helstu einkenni séu pirringur og óþægileg tilfinning eða verkir í fótum. Oft fylgi löngun eða þörf til að hreyfa fæturna og eru einkennin sögð koma helst fram við hvíld; eru þau verst á kvöldin og á nóttunni.

Víkverji vill ekki gera lítið úr þessum kvilla, eða mikilvægi rannsóknarinnar sem á að ráðast í. Hann vill þó segja: Margt er nú skrýtið í kýrhausnum!