STJÓRN Landverndar hefur sent Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra bréf þar sem hún er hvött til að beita sér fyrir því að í áformuðum aðgerðum til að efla atvinnu fái brýn verkefni á sviði náttúruverndar og þjóðgarða hlutdeild.

STJÓRN Landverndar hefur sent Siv Friðleifsdóttur umhverfisráðherra bréf þar sem hún er hvött til að beita sér fyrir því að í áformuðum aðgerðum til að efla atvinnu fái brýn verkefni á sviði náttúruverndar og þjóðgarða hlutdeild. Segir í bréfinu að á sviði náttúruverndar séu mörg brýn tímabundin verkefni sem muni auka eftirspurn eftir vinnuafli.

Nefnd eru dæmi í bréfinu, þar á meðal að í þjóðgarðinum á Snæfellsnesi, sem stofnaður var árið 2001, hafi lítið sem ekkert verið gert til að byggja upp þá aðstöðu sem er almennt talin nauðsynleg í þjóðgörðum. Í þjóðgarðinum í Jökulsárgljúfrum liggi fyrir áætlanir um uppbyggingu á aðstöðu sem ekki hafi komist til framkvæmda. Framundan sé stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs og augljóst að undirbúa megi stofnun þjóðgarðsins með uppbyggingu á aðstöðu sunnan jökuls. Á Vestfjörðum bíði mikilvæg verkefni til að bæta aðstöðu fyrir náttúruunnendur, m.a. á Hornströndum.

Stjórn Landverndar minnir á að náttúra Íslands er ein mikilvægasta auðlind þjóðarinnar. Með því að veita náttúruverndarverkefnum aðgang að tímabundnu átaki ríkisstjórnarinnar til að efla atvinnu er jafnframt verið að leggja grunn að meiri hagsæld í landinu.