MUN fleiri íbúar EFTA-landanna þriggja segjast hafa hafið atvinnurekstur nýlega eða hafið undirbúning að því en íbúar aðildarríkja Evrópusambandsins og Bandaríkjanna.

MUN fleiri íbúar EFTA-landanna þriggja segjast hafa hafið atvinnurekstur nýlega eða hafið undirbúning að því en íbúar aðildarríkja Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Þá gerir fólk á Íslandi og í Liechtenstein og minna úr skorti á fjárhagslegum stuðningi og hindrunum vegna skrifræðis vegna nýsköpunar en íbúar hinna landanna.

Þetta kemur fram í könnun sem Gallup gerði á síðasta ári fyrir framkvæmdastjórn Evrópusasmbandsins. Könnunin náði til 7.500 íbúa Evrópusambandsins, 500 íbúa frá hverju hinna þriggja landa EFTA, það er að segja Noregs, Íslands og Liechtenstein, og 500 Bandaríkjamanna. Spurt var um viðhorf fólks til stofnunar atvinnurekstrar.

Evrópumenn vilja vera launþegar

Könnunin leiddi í ljós að mun meiri vilji er meðal Bandaríkjamanna en Evrópubúa að stofna eigin atvinnurekstur. Þótt verulegur áhugi sé einnig í Evrópu virðast Evrópubúar kjósa í ríkari mæli að vera launþegar. Áberandi meiri vilji er meðal þeirra sem spurðir voru í Liechtenstein og á Íslandi fyrir atvinnurekstri en íbúa Evrópusambandins í heild en Norðmenn hafa aftur á móti mestan áhuga á að starfa sem launþegar. Þess ber þó að geta að viðhorf eru afar mismunandi innan ríkja Evrópusambandsins og í sumum þeirra er ríkur vilji til að starfa við eigin atvinnurekstur, eins og til dæmis í Portúgal.

Færri Íslendingar virðast vera að hugsa um að stofna fyrirtæki um þessar mundir en íbúar annarra landa þar sem viðhorfin voru könnuð, eða 13% Íslendinga á móti 22% íbúa ríkja Evrópusambandsins og 34% þátttakenda frá Bandaríkjunum.

Aftur á móti virðast fleiri Íslendingar og íbúar hinna EFTA-landanna hafa stundað atvinnurekstur en íbúar hinna landanna, það er að segja 29% Íslendinga, 26% Norðmanna og 22% íbúa Liechteinstein á móti 15% íbúa í ríkjum ESB og 14% Bandaríkjamanna.

Íbúum allra landanna finnst takmarkaður fjárhagslegur stuðningur standa því fyrir þrifum við að stofna til atvinnurekstrar. Þó kvarta íbúar EFTA-landanna minna undan því en íbúar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna. Áberandi er hins vegar hvað mikið færri þátttakendur á Íslandi og í Liechtenstein en í hinum löndunum telja að skriffinnska hjá hinu opinbera hindri þá í að hrinda í framkvæmd áformum um að efna til atvinnurekstrar. 37% þátttakenda á Íslandi og 40% í Liechtenstein nefna þessa hindrun en 60-70% íbúa hinna landanna.

Íslendingar virðast ekki alveg eins umburðarlyndir og aðrir gagnvart þeim sem hefur mistekist í atvinnurekstri. 70% þátttakenda héðan vildu gefa slíkum mönnum annað tækifæri en 83-84% þátttakenda í Evrópusambandinu og Bandaríkjunum voru jákvæð fyrir slíku.

Hræddir við gjaldþrot

Hræðslan við að tapa eignum sínum (50%) og að verða gjaldþrota (44%) eru þeir áhættuþættir sem flestir þátttakendur innan Evrópusambandsins nefna varðandi það að hefja atvinnurekstur um þessar mundir. Íbúar annarra landa nefna sömu þætti og bæta við óvissunni um tekjur. Íslendingar og Bandaríkjamenn eru hræddari við gjaldþrot en íbúar hinna landanna og nefndu um 51% Íslendinga þann áhættuþátt og 49% Bandaríkjamanna en 39-44% þátttakenda í öðrum ríkjum og ríkjasamböndum sem könnunin tók til. Þess ber þó að geta að afstaða fólks innan Evrópusambandsins er nokkuð mismunandi til þessara þátta, eins og annarra í þessari könnun. Sem dæmi má nefna að Danir, Írar og Bretar höfðu heldur meiri áhyggjur af því að verða gjaldþrota við það að stofna til atvinnurekstrar en Íslendingar.