ÞAÐ hitnaði heldur betur í kolunum undir lok leiks Aftureldingar og Fram í 1. deild karla í handknattleik í gær og m.a. þurfti lögreglumaður að ganga á milli manna oog stilla til friðar í leiknum sem lauk með jafntefli, 24:24.
ÞAÐ hitnaði heldur betur í kolunum undir lok leiks Aftureldingar og Fram í 1. deild karla í handknattleik í gær og m.a. þurfti lögreglumaður að ganga á milli manna oog stilla til friðar í leiknum sem lauk með jafntefli, 24:24. Þremur sekúndum fyrir leikslok braut Valdimar Þórsson, leikmaður Fram, gróflega á Hrafni Ingvarssyni, leikmanni Aftureldingar, sem gerði sig líklegan til þess að freista þessa að skora sigurmark leiksins fyrir heimaliðið. Þegar Valdimar var vísað af leikvelli með rautt spjald fagnaði hann með því að rétta upp hendurnar. Við það fauk í menn á varamannabekk Aftureldingar og einhverjum varð það á að spyrna knetti, viljandi eða óviljandi, í Valdimar þegar hann gekk út af. Þar með sauð uppúr Fram megin og kom til snarpra orðaskipta m.a. á milli Bjarka Sigurðssonar, þjálfara Aftureldingar, og Héðins Gilssonar, leikmanns Fram, sem sat í skammarkróknum, hafði verið rekinn af leikvelli skömmu áður. Hópur manna gekk á milli Bjarka og Héðins og fleiri manna sem töldu sig hafa ýmislegt til málanna að leggja. Meðal þeirra sem gengu fram fyrir skjöldu til þess að lægja öldurnar var Heimir Ríkharðsson, þjálfari Fram og lögreglumaður, sem rann blóðið til skyldunnar að koma í veg fyrir frekari leiðindi. Það tókst og hægt var að ljúka leiknum.