ARI Freyr Skúlason, 15 ára gamall knattspyrnumaður úr Val, dvelur um þessar mundir hjá hollenska úrvalsdeildarfélaginu Heerenveen. Hollendingarnir vilja semja við Ara Frey, enda hafði hann áður dvalist hjá þeim og staðið sig mjög vel, og samkvæmt heimildum Morgunblaðsins hefur náðst fullt samkomulag við alla aðila í málinu um að hann gangi til liðs við félagið. Alþjóða knattspyrnusambandið, FIFA, heimilar hins vegar ekki félagaskipti hans að svo stöddu.

Samkvæmt nýrri félagaskiptalöggjöf FIFA er leikmönnum undir 18 ára aldri óheimilt að skipta á milli landa nema sérstakar ástæður liggi fyrir. Geir Þorsteinsson, framkvæmdastjóri KSÍ, sagði við Morgunblaðið í gær að mál Ara Freys væri alfarið í höndum FIFA.

"Frá okkar hendi var engin fyrirstaða varðandi félagaskipti hans en FIFA hefur óskað eftir því að ekki verið gefin út leikheimild að svo stöddu. Verndun yngri leikmanna er eitt af lykilatriðunum í nýju félagaskiptareglunum en það hafa verið mikil brögð að því að ungir leikmenn, sérstaklega frá Austur-Evrópu og Afríku, hafi komið til evrópskra félaga en síðan staðið uppi bjargarlausir ef þeir hafa ekki þótt nægilega góðir knattspyrnumenn. Til að svona ungir leikmenn geti skipt á milli landa þarf fjölskyldan helst að flytja búferlum, nám að vera tryggt og samningur hans við félagið verður að samræmast vinnulöggjöf viðkomandi lands," sagði Geir. Hann kvaðst halda að í hollensku vinnulöggjöfinni væri miðað við 16 ára aldur en Ari Freyr verður 16 ára í maí.