Jón Arnar Magnússon stóð sig vel í Tallinn.
Jón Arnar Magnússon stóð sig vel í Tallinn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
JÓN Arnar Magnússon fjölþrautarkappi varð í þriðja sæti á Erki Nool sjöþrautarmótinu sem fram fór í Tallinn í Eistlandi um helgina. Jón Arnar fékk 6.028 stig sem gætu dugað honum til að komast á Heimsmeistaramótið sem fram fer í Birmingham um miðjan næsta mánuð, en þar keppa sex bestu sjöþrautarmenn heims.

Tékkinn Roman Sebrle sigraði með nokkrum yfirburðum í mótinu, hlaut 6.228 stig en gestgjafinn Erki Nool krækti sér í annað sætið á lokasprettinum, skaust þá upp fyrir Jón Arnar og fékk 6.044 stig. Jón Arnar hafði lengstum verið í öðru sæti en í næstsíðustu greininni, stangarstökkinu vippaði Nool sér yfir 5,25 metra á meðan Jón Arnar fór yfir 4,85. Þarna fékk Nool 33 stigum meira en Jón Arnar og dugði það honum til að halda í annað sætið því þrátt fyrir ágætt 1.000 metra hlaup hans náði hann ekki að stinga heimamanninn af.

Erki Nool sýndi mikla baráttu í þrautinni, byrjaði vel og var með forystu eftir fyrstu grein en Sebrle og Jón Arnar stukku framúr honum í langstökkinu og í kúlunni datt hann niður í fimmta sætið. Hann gafst ekki upp, enda vel studdur af fjölmörgum áhorfendum og eftir fyrri daginn var hann í fjórða sæti. Ekki náði hann sér á strik í fyrstu grein sunnudagsins, 60 metra grindahlaupi og datt á ný niður í fimmta sæti. Nú var komið að hans grein, stangarstökkinu og þar skaust hann upp í annað sætið og hélt því í 1.000 metra hlaupinu þó hann yrði aðeins á eftir Jóni Arnari.

Sex bestu sjöþrautarmenn heims, sem eru í efstu sætum viku eða tíu dögum fyrir mót, er boðin þátttaka á HM í Birmingham og verður að telja Jón Arnar líklegan til að fá boðskort. Ljóst er að Lev Lobodin frá Rússlandi kemst þangað enda fékk hann 6.412 stig á móti í heimalandi sínu á dögunum og er það besti árangur ársins. Sebrle kemst líka þangað á 6.228 stigunum sem hann fékk um helgina og Erki Nool er með þriðja besta árangurinn, 6.004 stig. Næstir koma Jón Arnar og Rússinn Alexandr Pogorelov. Þar sem stutt er í mót og tiltölulega fá fjölþrautarmót eftir verður að telja líkurnar á að Jón Arnar hafi tryggt sér rétt til keppni í Birmingham miklar. Raunar verður sænska meistaramótið um næstu helgi og um aðra helgi verður það austurríska og aldrei er að vita hvað Bandaríkjamenn gera. En ætli menn sér upp fyrir þá Jón Arnar og Pogorelov verða þeir að gera virkilega vel.

Jón Arnar hefur tekið þátt í öllum sex Erki Nool mótunum, en kappinn hóf að bjóða bestu tugþrautarmönnum heims á þetta mót í Tallinn árið 1998. Jón Arnar hefur tvívegis orðið í öðru sæti, 2000 með 6.149 stig og í fyrra þegar hann hlaut 5.886 stig. Fyrsta árið varð hann í 5. sæti með 5.831 stig, árið eftir, 1999 varð hann sæti ofar með 5.986 stig, síðan kom annað sætið en 2001 endaði hann í 5. sæti með 6.056 stig og 6.028 stig um helgina dugðu í þriðja sætið.

Þess má að lokum geta að Íslandsmet Jóns Arnars í sjöþraut er 6.293 stig og það setti hann á HM í Japan árið 1999.