Hans Lindqvist
Hans Lindqvist
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Það er þörf fyrir sjálfstæða norræna rödd í heiminum. Við styðjum því öflug Norðurlönd en höfnum sambandsríki ESB."

Uffe Ellemann-Jensen og Carl Bildt hafa ritað sameiginlega grein, sem birt var í nokkrum norrænum dagblöðum, með hugleiðingar um möguleika Norðurlanda í breyttri Evrópu.

Fyrst ber að þakka þessum tveimur þekktu stjórnmálamönnum fyrir að leggja sitt af mörkum til samnorrænnar umræðu um mál sem er mjög mikilvægt fyrir öll Norðurlöndin. Þetta er frumlegt og jákvætt framtak.

Röksemdir þeirra og niðurstöður standast þó ekki allar. "Á síðustu öld skildi leiðir norrænu ríkjanna að nokkru leyti," fullyrtu þeir til að mynda og skírskotuðu til þess að ólíkir öryggispólitískir hagsmunir hafi orðið til þess að "þær fóru nokkuð hver í sína áttina þegar kom að þátttöku í evrópsku, vestrænu og alþjóðlegu samstarfi". Og niðurstaða þeirra er að aðeins með fullri aðild allra Norðurlandanna að ESB geti norræna röddin fengið mikið vægi á alþjóðavettvangi.

Þessir tveir greinarhöfundar gleyma því að Norðurlöndin hafa verið þekkt og virt fyrir samstarf þeirra og sérstöðu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta kemur skýrt fram í fjölda þeirra norrænu stjórnmálamanna sem hafa gegnt æðstu embættum hjá Sameinuðu þjóðunum (Trygve Lie, Dag Hammarskjöld, Poul Hartling, svo nokkrir séu nefndir). Samræming sjónarmiða Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna var í föstum skorðum og þau voru að miklu leyti álitin eining. Það sást meðal annars þegar fyrsti lýðræðislega kjörni forseti Suður-Afríku, Nelson Mandela, lagði upp í ferðalag við lok forsetatíðar sinnar til að kveðja. Þá ákvað hann ekki að heimsækja stórveldi eins og Bretland, Frakkland eða Bandaríkin. Hann heimsótti Holland og Norðurlöndin til að þakka þeim fyrir stuðninginn sem þau höfðu veitt í sameiningu í baráttunni gegn aðskilnaðarstjórninni í Suður-Afríku.

En hvernig er framganga Norðurlandanna á vettvangi Sameinuðu þjóðanna núna? Martin Sjöstedt og Ulf Bjereld, hinn fyrrnefndi er nemi og hinn síðari prófessor í stjórnmálafræði við Gautaborgarháskóla, hafa rannsakað stefnu Svíþjóðar á vettvangi Sameinuðu þjóðanna á árunum 1982-2001 og fjallað um hana í Dagens Nyheter. Þegar hagsmunir iðnríkjanna og þróunarlandanna fóru ekki saman greiddu Svíar atkvæði með ríkjum þriðja heimsins í um það bil helmingi tilvikanna á níunda áratugnum en núna greiða þeir næstum alltaf atkvæði með hinum ESB-löndunum eða öðrum auðugum ríkjum.

Þegar samið var um endurnýjun Basel-sáttmálans, um útflutning hættulegs úrgangs til landa þriðja heimsins, lögðu norrænu ríkin fram sameiginlega tillögu sem hefði hindrað útflutninginn. Evrópusambandið snupraði Dani, Svía og Finna og fékk þá til að styðja tillögu ESB sem var ekki jafnvíðtæk. Norðmenn stóðu við upprunalegu norrænu tillöguna og hún var samþykkt.

Norðmenn gegndu sama hlutverki í fyrra á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Jóhannesarborg um sjálfbæra þróun þegar fjallað var um nýjar reglur Heimsviðskiptastofnunarinnar. Norðmenn tryggðu meirihluta fyrir breytingu sem gerði umhverfissjónarmiðum jafnhátt undir höfði og viðskiptasjónarmiðunum - þótt Evrópusambandið og Bandaríkin hafi fyrst stutt aðra tillögu sem var ekki eins umhverfisvæn.

Og hvaða Norðurlandaþjóð hefur á síðasta áratug haft árangursríka og áhrifamikla milligöngu í Mið-Austurlöndum og nú síðast á Sri Lanka? Það eru aumingja einangruðu Norðmenn.

Norrænu ESB-löndin hafa nú takmarkað sjálfstæði í utanríkismálum og ekkert sjálfstæði hvað viðskiptastefnuna varðar og eru því nú réttilega álitin hluti af viðskiptapólitísku og bráðum hervæddu stórveldi, með sína eigin hagsmuni. Þau geta því ekki gegnt hlutverki milligöngumanna í heimsmálunum eins og þau gerðu með góðum árangri áður. Og það er synd vegna þess að í heimi sem breytist svo hratt vegna alþjóðavæðingar, eins og greinarhöfundarnir tveir lýstu réttilega, er mikil þörf fyrir slíka óháða milligöngumenn. Evrópusambandið og Bandaríkin eru mikilvægir og öflugir leikarar á leiksviði heimsmálanna. En það er engum í hag að láta þeim allt sviðið eftir.

Kanada hefur auðvitað náið samstarf við volduga grannríkið í suðri, en gegnir öðru hlutverki á alþjóðavettvangi og hefur sérstöðu, sem landið hefði ekki væri það hluti af Bandaríkjunum. Norðurlöndin geta með sama hætti orðið "Kanada Evrópu" og endurheimt þá virðingu, sem þau hafa notið í heiminum, ef þau vilja ekki lengur taka þátt í ráðagerðinni um "Bandaríki Evrópu". Það er þörf fyrir sjálfstæða norræna rödd í heiminum. Við styðjum því öflugri Norðurlönd en höfnum sambandsríki ESB.

eftir Hans Lindqvist og Poul Gerhard Kristiansen

Hans Lindqvist er fyrrverandi þingmaður á Evrópuþinginu, er í sænska Miðflokknum og samhæfir starfsemi TEAM, evrópskra samtaka gagnrýnenda ESB. Poul Gerhard Kristiansen er aðalritari Þjóðarhreyfingarinnar gegn ESB í Danmörku og fyrrverandi formaður Réttarsambands Danmerkur.

Höf.: eftir Hans Lindqvist, Poul Gerhard Kristiansen