"Ég fór á bólakaf ofan í krapann og vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Ég sá glitta í sleðann, sem stóð aðeins upp úr vatninu og náði að svamla að honum," segir Andrína sem sat á snjósleða í miklum krapaelg í þrjá tíma.
"Ég fór á bólakaf ofan í krapann og vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Ég sá glitta í sleðann, sem stóð aðeins upp úr vatninu og náði að svamla að honum," segir Andrína sem sat á snjósleða í miklum krapaelg í þrjá tíma.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ANDRÍNA Guðrún Erlingsdóttir, 31 árs kona sem þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF bjargaði seinni partinn í gær eftir að hún hafði beðið í þrjá klukkutíma á vélsleða úti í miðjum krapaelg norðan við Landamannalaugar, segist ekki hafa verið hrædd meðan á...

ANDRÍNA Guðrún Erlingsdóttir, 31 árs kona sem þyrla Landhelgisgæslunnar TF-LÍF bjargaði seinni partinn í gær eftir að hún hafði beðið í þrjá klukkutíma á vélsleða úti í miðjum krapaelg norðan við Landamannalaugar, segist ekki hafa verið hrædd meðan á biðinni stóð en að ýmislegt hafi farið í gegnum huga hennar. Henni varð ekki meint af volkinu, segir að atburðir gærdagsins hafi bara hert hana.

Andrína var á ferð ásamt eiginmanni sínum, Benedikt Bragasyni, en þau reka vélsleðaferðaþjónustu á Mýrdalsjökli og því bæði vant vélsleðafólk. Ekkert stöðuvatn er þar sem atvikið varð en leysingavatn og rigningavatn síðustu daga hafði safnast saman og myndað mikinn krapaelg.

"Við vorum á leiðinni inn í Landmannalaugar og það var mígandi rigning þarna inn frá, allt orðið blátt og blautt. Við vorum að fara yfir krapasvæði og svo opnaðist allt í einu hafsjór fyrir framan okkur og við reyndum að fleyta okkur yfir. Ég lenti í röstinni eftir sleðanum hjá [Benedikt], sleðinn fór nokkrar veltur og ég kastaðist af honum. Ég fór á bólakaf ofan í krapann og vissi ekki hvað sneri upp eða niður. Ég sá glitta í sleðann, sem stóð aðeins upp úr vatninu og náði að svamla að honum," segir hún.

"Ég hugsaði um ýmislegt"

Andrína mátti bíða í um þrjá klukkutíma þar til henni var bjargað. "Ég var mjög vel búin, í ullarnærfötum og fóðruðum Gore-Tex galla," segir Andrína, en viðurkennir að henni hafi verið kalt enda var mikill öldugangur í vatninu sökum hvassviðris og gengu gusurnar yfir hana.

Andrína segir að vélsleðar sökkvi alltaf lendi þeir í vatni og telur að því hljóti sleðinn að hafa setið á steini. "Það var ótrúlegt lán," segir Andrína og bætir við að þyrluáhöfnin á TF-LÍF hafi talið að vatnið væri um tveggja metra djúpt. Hún telur að um hálfur kílómetri hafi verið frá sleðanum á fast land þangað sem Benedikt, maðurinn hennar komst.

"Ég hugsaði um ýmislegt," segir Andrína aðspurð hvað fór í gegnum huga hennar meðan hún sat á sleðanum, en á stundum þurfti hún að ríghalda sér, svo mikið var rokið. "Ég var alltaf að reyna að gera mér grein fyrir því hvernig væri hægt að ná í mig, ég vissi ekki að þyrlan væri á leiðinni. Ég frétti það ekki fyrr en svona hálftíma áður en hún kom að hún væri á leiðinni." Andrína segir að Benedikt hafi hringt í gsm-farsíma sem hún var með í vasanum og þannig gat hann sagt henni að þyrlan væri á leiðinni.

Andrína segir að hún hafi velt því fyrir sér hvort hún gæti synt í land. "Ég var með tóman bensínbrúsa á sleðanum og mér datt svona helst í hug að reyna að taka hann og nota hann sem flotholt. En það var rosalegur öldugangur í vatninu," segir Andrína. "Þetta var svolítið óþægilegt, ég þurfi að halda mér á sleðanum til að fjúka ekki. Ég var nú aldrei neitt hrædd en þetta var ónotalegt samt."

Andrína segir að henni hafi létt mikið þegar hún sá þyrluna koma. "Það var mjög notaleg tilfinning og gott að koma um borð í þyrluna." Hún segir að þrátt fyrir atburði gærdagsins ætli hún að halda áfram að fara á vélsleða. Hún verði ekkert hrædd við íþróttina í framtíðinni. "Þetta herðir mann bara," segir hún ákveðin.

Þegar Morgunblaðið náði tali af Andrínu, stuttu eftir að henni var bjargað úr prísundinni var hún í góðu yfirlæti hjá vinum. "Það var svolítið kalt, en ég er orðin nokkuð hress núna og búin að ná upp hita. Ég drakk nokkra sopa af kaffi og fékk að fara í sturtu eftir að þyrlan lenti," segir hún galvösk.

Andrína og Benedikt voru daginn áður með hóp af ferðamönnum frá National Geographic. "Við förum ekki með túrista í svona, þetta var bara einkatúr," segir Andrína.