Jón Kristinn Jónasson iðnverkamaður, Háagerði 27, Reykjavík, fæddist á Eyrarbakka 1. október 1909 og ólst þar upp. Hann lést sunnudaginn 9. febrúar síðastliðinn. Foreldrar hans voru Jónas Einarsson, f. 18.11. 1862, d. 5.4. 1927, sjómaður í Garðhúsum á Eyrarbakka, og Guðleif Gunnarsdóttir, f. 27.6. 1873, d. 6.1. 1953, húsmóðir. Jón átti átta systkini en eitt þeirra er á lífi, Ingveldur Jónasdóttir, f. 29.10. 1917, húsmóðir í Reykjavík.

Jón fór ungur til sjós og stundaði sjómennsku frá Eyrarbakka á sínum yngri árum. Hann starfaði síðan í Stálhúsgögnum frá stofnun fyrirtækisins og þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir 1997.

Eiginkona Jóns var Rannveig Magnúsdóttir, f. 18.5. 1910, d. 9.7. 1985, húsmóðir. Hún var dóttir Magnúsar Hávarðarsonar útgerðarmanns í Neskaupstað og Guðrúnar Guðmundsdóttur húsmóður. Börn Jóns og Rannveigar eru: 1) Guðrún Jónsdóttir, f. 1.2. 1938, starfsmaður við Landspítala í Fossvogi, búsett í Kópavogi. Maður hennar er Sveinn Ólafur Tryggvason, f. 1.6. 1931 og eiga þau fjögur börn. 2) Auður Jónsdóttir, f. 9.7. 1946, bankastarfsmaður, búsett í Sandgerði. Maður hennar er Rafn Sævar Heiðmundsson og eiga þau þrjú börn.

Útförin fer fram í dag, mánudaginn 17. febrúar, kl. 13:30 í Bústaðakirkju.

Elsku afi og afi-langafi eins og börnin okkar voru vön að kalla þig, nú ertu farinn frá okkur og kominn á næsta áfangastað. Við kveðjum þig með söknuð í hjarta en þakklæti fyrir að hafa fengið að hafa þig hjá okkur svo lengi.

Með þér hverfur einn af traustari póstum tilveru okkar sem við áttum í þér og ömmu í Háagerði 27. Í húsinu ykkar sem þið byggðuð löngu áður en við komum í þennan heim áttum við eftir að búa, alast upp, þroskast og eiga ómældar gleðistundir með allri fjölskyldunni.

Alltaf varstu tilbúin til að hjálpa okkur með hvað sem var, hvað sem tautaði og raulaði og alltaf áttum við húsaskjól hjá þér til lengri eða skemmri tíma þegar svo stóð á. Með þinni hjálp náðum við mörgum af okkar stóru markmiðum í lífinu.

Þú varst alvörumaður, heill í gegn og harður af þér, pottþéttur nagli eins og sumir myndu segja. Við sem þekktum þig vissum að þú varst ekki þekktur fyrir að gefast upp hversu sterkur sem mótvindurinn var. Þú hafðir þínar skoðanir á hlutunum og lást ekki á þeim. Tjáðir þig óspart um heims- og þjóðarmál og varst alla tíð vel inni í því sem var að gerast í lífinu og tilverunni. Aldrei sáum við þig sitja auðum höndum og vandvirknin var þér í blóð borin þannig að allt sem þú komst að eða gerðir var eins vandað og vel gert og frekast var unnt og það er fátt í dag sem stenst samanburð við þínar verkhendur og það sem frá þeim kom. Þú varst alltaf að smíða, lagfæra eða búa eitthvað til. Huga að húsinu eða bílnum. Smíða eða bólstra húsgögn. Handlagni þín átti síðan eftir að koma enn betur í ljós á þínum efri árum þegar listamaðurinn í þér kom fram á sjónarsviðið. Þú varst ekki búinn að vera lengi í Seljahlíð þegar þú varst kominn á kaf í leirkeragerð og farinn að búa til hina ýmsu hluti sem þú færðir okkur að gjöf og við kunnum svo vel að meta og eru hver öðrum fallegri. Hagnýta hluti, vasa, skálar og eldföst mót því það var þinn stíll.

Þau þrjú síðustu ár ævinnar sem þú dvaldir í Seljahlíð voru þér góð, þér leið vel þar og kom það okkur öllum þægilega á óvart þegar þú að fyrrabragði fórst að tala um það að flytja þangað frá þeim stað þar sem þú hafðir búið mestalla þína ævi. Þú hafðir gaman af félagsskapnum, gönguferðunum þínum og svo varstu líka farinn að segja sögur þegar unnið var við leirinn öðrum vistmönnum og starfsfólki til gamans og ánægju.

Minningarnar eru margar og gaman að rifja upp þegar við vorum lítil börn hjá ykkur. Það var alltaf svo notalegt að koma og vera hjá þér og ömmu. Fá afa-kaffi, heitt ostabrauð, heimatilbúna rifsberjasaft í fínu glösunum, hlusta á miðdegissöguna í útvarpinu með ömmu, sitja inni í litla herbergi þar sem amma sat og saumaði föt eða prjónaði lopapeysur og bíða eftir að þú kæmir heim úr vinnunni með kaffið og jólakökuna tilbúna, grænu frostpinnarnir og leikirnir í garðinum á sumrin. Jólaboðin sem voru haldin á jóladag og voru fastur liður í jólahaldi fjölskyldunnar hélstu í heiðri eftir að amma fór frá okkur. Þú sauðst hangikjötið og hafðir mest allt klárt nema þá helst uppstúfið sem þú lést okkur konunum eftir. Sunnudagssteikin á Álfhólsveginum var líka fastur liður í tilverunni. Fjöruferðirnar í Sandgerði þar sem þú gafst unga fólkinu ekkert eftir í göngunni og sem enduðu með hlaðborði á Suðurgötunni og allir fóru heim saddir, sælir og þreyttir eftir daginn. Öll afmælin og veislurnar sem haldnar voru og þig vantaði aldrei. Þú varst alltaf með. Við eigum eftir að sakna þess "að ná í þig" og hafa þig með okkur.

Elsku besti afi sem varðst þeirrar gæfu aðnjótandi alla ævi að vera með heilsuhraustustu mönnum hefur nú kvatt okkur í bili. Þau veikindi sem skyndilega herjuðu á þig fyrir jól ollu þér hugarangri því þú vissir alveg hvað var að gerast. Nú ertu kominn til hennar ömmu sem fór frá okkur alltof snemma.

Þeim stöðugleika sem ríkti í þér og þínu heimili og var okkur svo til góða verður kannski best lýst með því þegar þú þá sjaldan varðst veikur á þínum efri árum og misstir dag úr vinnu þá töluðum við oft um það að "Tredian" færi sjálf niður á Skúlagötu og kæmi síðan aftur heim í eftirmiðdaginn, slíkur var stöðugleikinn í þér og allt í kringum þig. Þú hefur verið fyrirmynd okkar í mörgu og gefið okkur mikið í gegnum lífið á þinn hátt.

Elsku afi og amma, minningin um ykkur mun lifa vel og lengi í hjarta okkar allra, það er svo mikið af ykkur í okkur og börnunum okkar. Takk fyrir allt, þið voruð best. Hvílið í friði og guð geymi ykkur.

Í ljóssins ríki leið mig inn

og lát mig finna þig,

og hæfan fyrir himininn,

ó, herra, gjör þú mig.

(Sigurbjörn Sveinsson.)

Ykkar barnabörn,

Jón Kristinn, Tryggvi

Gunnar, Rannveig,

Þórdís, Magnús Rannver, Helga Björg og Heiða.