Bjarney Ingibjörg Ólafsdóttir fæddist á Flateyri 20. október 1923. Hún lést á Landspítalanum 23. janúar síðastliðinn og var útför hennar gerð frá Ísafjarðarkirkju 1. febrúar.

Þegar ég heyrði lát Eyju systur minnar grét ég eins og barn og vildi ekki trúa raunveruleikanum. Smátt og smátt fylltist hugur minn af góðum minningum sem þerruðu tárin og hjartað varð fullt af þakklæti til minnar kæru systur. Það má með sanni segja að hún hafi tekið stóran þátt í uppeldi mínu, þar sem heimili hennar og Guðmundar Sveinssonar heitins var eins og mitt annað heimili og þau önnuðust mig eins og ég væri þeirra eigið barn. Eyja var á þessum tíma heimavinnandi húsmóðir og tók alltaf glaðlega á móti mér. Hjá henni var ég alltaf svo frjáls. Hún tók þátt í ímyndunar- og hlutverkaleikjum mínum og það er mér nú ómetanlega góð minning. Hún vakti snemma áhuga minn á leiklist, lánaði mér alls konar áhöld og klæði til leikja og meira að segja brúðarkjólinn sinn sem var sá flottasti sem ég hef séð fyrr og síðar. Kjóllinn var vissulega of stór á mig, þá aðeins sex ára, en mér fannst ég vera fullorðin álfamær á því augnabliki sem ég lék fyrir stóru systur sem horfði á með sínu blíða brosi.

Ég fór ung í Tónlistarskólann og fékk að æfa mig á píanóið hennar. Ég er þess fullviss að þær æfingar hafi ekki alltaf hljómað vel í eyrum og enn í dag er ég að dást að þolinmæði Eyju. Hún kvartaði aldrei undan hávaða, feilnótum og ómstríðum en sagðist bara hafa gaman af að hlusta á leik minn og hvatti mig áfram til námsins.

Eyju tókst vel að rækta blóm og heimilið ilmaði vel. Mér fannst hún vera blómadrottning og varð hissa þegar einhver önnur kona fékk þann titil. Hún kunni að hlusta og leiðbeina og henni var alltaf hægt að treysta. Á unglingsárum mínum hvatti hún mig til að takast á við alls konar verkefni í sambandi við félagsstörf mín í skátahreyfingunni, skólanum og stúkunni og var minn besti ráðgjafi. Mikið er ég rík að hafa átt hana að.

Á uppvaxtarárum mínum voru yndislegu börnin hennar og Guðmundar, Magni, Anna Lóa, Þórdís og Svenni, mér mikils virði. Þá var æðislegt að vera Fjóla frænka; leika við þau og eiga þau að. Þá kallaði Eyja mig stundum stóru stelpuna sína eða góðu barnapíuna sína og ég fylltist stolti því annars var ég yngsta barnið hennar mömmu, sem sagt lítil og stór í senn.

Eyja var búsett á Ísafirði alla sína ævi, tók virkan þátt í alls konar félagsstörfum og lagði sitt af mörkum í uppbyggingu bæjarins. Það var í eðli hennar að huga vel að umhverfi sínu. Þar sem ég fluttist rúmlega tvítug frá Ísafirði minnkaði beint samband okkar systra en við skrifuðumst á. Þannig fékk ég innsýn í líf hennar og fjölskyldu og hvað væri aðallega að gerast í félags- og uppbyggingarmálum staðarins.

Þetta var mér mikils virði, sérstaklega þegar ég var við nám og vinnu erlendis í næstum áratug.

Við hittumst ekki oft eftir að ég fluttist heim til Íslands en þegar það gerðist voru allar samverustundir okkar gulls ígildi. Við sungum saman tvíraddað, skemmtum okkur og ræddum allt milli himins og jarðar. Hún var svo góð manneskja, full af mannúð og kærleika, bar fulla virðingu fyrir annarra trú og menningarsiðum. Það er mikill mannkostur.

Nokkrum dögum fyrir lát hennar hringdi hún í mig. Rödd hennar hljómaði sem rödd unglingsstúlku. Hún var vongóð um að skurðaðgerðin tækist vel og sagðist hlakka til að heimsækja mig og ræða nánar um gamla barnasöngva en það var síðasta málefnið sem ég ráðfærði mig um við hana.

Það tók mig sárt að geta ekki fylgt Eyju síðustu sporin. Flugvélin sem ég ætlaði með til Ísafjarðar þurfti að snúa við til Reykjavíkur og svo verkjaði mig í andlit og handlegg vegna smáslyss sem ég lenti í fyrir framan flugstöðina og ákvað að hætta við næstu ferð. Meðan á útförinni stóð áttum við Gugga systir samveru sem styrkti okkur báðar. Fráfall Eyju er sárt fyrir okkur öll sem kynntumst henni en um leið er hægt að gleðjast yfir öllum þeim ljúfu minningum sem hún hefur skilið eftir í huga okkar.

Elsku Magni, Anna Lóa, Þórdís og Svenni, ég og fjölskylda mín sendum ykkur og fjölskyldum ykkar okkar hjartans samúðarkveðjur. Að lokum sendi ég smáleiðsögn sem ég vona að þerri saknaðartárin. Hún er eftir heiðursforseta SGI, Daisaku Ikeda, úr bókinni "Faith into Action":

Þegar veturinn gengur í garð missa tré og aðrar plöntur lauf sín tímabundið. En þessar jurtir búa yfir lífi sem gerir þeim kleift að bera brum þegar vorar að nýju. Hið sama á við um dauða mannlegrar veru. Við búum öll yfir lífskrafti sem mun leiða okkur í átt að nýju lífi, nýju hlutverki, samstundis og án sársauka.

Með hjartans kveðju,

Jóhanna Fjóla Ólafsdóttir.