Pontiac Firebird í eigu föður Sverris Ingva.
Pontiac Firebird í eigu föður Sverris Ingva.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sverrir Ingvi Karlsson er átján ára bílamálari á Húsavík. Hann kann að glimmersprauta og sprauta viðarlakki. Hann á líka tvo aflmikla ameríska bíla, þ.ám. eina Pontiac Grand Prix '77 á landinu.

BÍLAGENIN eru ríkjandi í fjölskyldunni í Heiðargerði 2 á Húsavík. Feðgarnir Karl Óskar Geirsson og Sverrir Ingvi og Karl Hermann eru á kafi í bílum og heimilisfaðirinn er reyndar margfaldur Íslandsmeistari í sandspyrnu. Nýlega spurðist það út að Sverrir Ingvi hefði sprautað Chevrolet Malibu 1979, sem er í hans eigu, með viðarlakki. Þetta ku vera eini bíllinn á landinu sem hefur verið sprautaður með þessari aðgerð.

Námskeið í Hollandi

"Ég fór í endaðan nóvember til Hollands og var á námskeiði hjá Glassurite-fyrirtækinu í ýmsum "effect"-sprautunum, þar á meðal viðaráferð og einnig með klessupappír og bréfpokum. Þetta er ætlað fyrir hvað sem er, svo sem innréttingar í húsum, mælaborð í bílum og, eins og í mínu tilfelli, utan á bíl. Það er reyndar ekki vitað til þess að það hafi nokkurn tíma verið gert áður. Ég byrja á því að mála allan bílinn gulan en síðan set ég á brúnan lit og venjulegt snýtubréf. Ég vöðla bréfinu saman og dýfi því ofan í litinn og doppa allan bílinn með bréfinu. Þetta er gert mjög skipulega og með réttum efnum, ýmsum þynnum í réttri röð. Síðan glæra ég bílinn og millislípa aftur glæruna. Loks glæra ég hann aftur til að fá eggslétta áferð á hann," segir Sverrir Ingvi.

Hann kveðst ekki vita betur en að leyfilegt sé að sprauta bíla með þessum hætti. Bíllinn er bara brúnn en með vissri áferð. Þetta er svokölluð mahóní-áferð, sem sjá má í innréttingum í stórum Mercedes-Benz og BMW-bílum.

Sverrir Ingvi, sem er átján ára gamall, hefur unnið undanfarið eitt ár hjá Bílamálun Alla Berg á Húsavík. Margar fyrirspurnir hafa borist um nýja litinn en hann kveðst ekki upplýsa í smáatriðum hvernig staðið er að verki. "Við fórum tíu, frekar en átta, út til Hollands og vorum þar af leiðandi þetta margir sem lærðum þetta. En það liggur að baki fleiri hundruð klukkustunda vinna við þessa sprautun. Ég keypti bílinn vélarlausan og sprautaði hann í fjórum pörtum. Það er svartur vinyltoppur á honum og hann sprautaði ég sérstaklega. Vélarsalurinn, öll föls, hurðir og skottlok að innan eru sprautuð í þessum lit."

Sverrir Ingvi fékk í bílinn 305 kúbiktomma Chevrolet-vél sem skilar nálægt 200 hestöflum. Komnar eru í bílinn flækjur og fjögurra hólfa blöndungur. Hann á annan bíl sem hann segir að sé mun meiri keppnisbíll. "Þetta er sá eini sem eftir er í landinu af Pontiac Grand Prix árgerð 1977. Hann er glimmersprautaður. Ég fékk bílinn illa farinn frá bróður mínum. Hann stóð á búkkum og engin innrétting í honum. Ég smíðaði nýjan topp á hann og þurfti að ryðbæta hann mikið. Bróðir minn hafði farið í gólfið á honum þannig að það er nýtt. Pabbi hjálpaði mér síðan að mála hann. Ég var sextán ára þegar ég tók bílinn í gegn og kunni þá ekki að glimmersprauta. Bíllinn er kominn með miklu stærri vél og aðra skiptingu. Vélin er 455 kúbiktomma Pontiac með nítrói og fullgræjaðri vél."