[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Runólfur Ólafsson formaður FÍB segir að svo virðist sem að frumvarp sem tekur á skattlagningu dísilbíla og hafi verið í anda álitsgerðar viðkomandi ráðuneyta, hafi verið tekið af dagskrá á yfirstandandi þingi og því sé ekki fyrirsjáanlegt hver framvinda...

Runólfur Ólafsson formaður FÍB segir að svo virðist sem að frumvarp sem tekur á skattlagningu dísilbíla og hafi verið í anda álitsgerðar viðkomandi ráðuneyta, hafi verið tekið af dagskrá á yfirstandandi þingi og því sé ekki fyrirsjáanlegt hver framvinda málsins verði. Sem sé forkostanlegt þar sem núverandi skattlagning dísilbíla sé meingölluð og bifreiaðeigendum gróflega mismunað. Frumvarpið sem um ræðir kveður á um að setja á svokallað olíugjald í stað þungaskatts.

Runólfur sagði að í þessu máli tækjust á hagsmunatengd og pólitísk atriði sem flæktu málið og andstæðingar olíugjalds væru sumir hverjir mjög öflugir málsvarar skoðana sinna. "Sjónarmið FÍB varðandi skattlagningu dísilbíla eru skýr," segir Runólfur í samtali við Morgunblaðið.

Betri orkunýting...

Runólfur taldi upp helstu sjónarmið FÍB. "Olígjald í stað þungaskatts dregur úr eldsneytiseyðlsu og útlosun gróðurhúsalofttegunda. Það eykur meðvitund um olíunotkun sem stuðlar að betri orkunýtingu og dregur úr sóun.Olíugjald er æskilegri skattlagning er þungaskattur þar sem gjaldið hvetur menn til að leita bestu eldsneytisnýtingar og afleggja úreltan tækjaflota. Þá eiga sömu rekstrarforsendur að vera fyrir fólksbíla, óháð því hvort þeir eru bensín- eða dísilknúnir og skattlagning á ekki að skekkja þær forsendur.

Þá mælir það með oliúgjaldi að innheimta þess er öruggari en þungaskatts. Öll undanskot valda ranglátri skiptingu skattbyrði og skekkja samkeppnisstöðu einstaklinga og fyrirtækja. Þá verður að innheimta aukinn kostnað af litun af allri dísilnotkun. Jafnræði er þar grundvallaratriði. Það er óverjandi að skattleggja þá sem nota innan við fjórðung af dísilolíu hér á landi til að viðhalda skattleysi þeirra sem nýta hátt í 80% af olíunni."

FÍB setur fyrirvara

Runólfur heldur áfram: "FÍB setur jafnframt fyrirvara varðandi þann mikla kostnað sem olíufélögin áætla að olíugjald með litun útheimti. Með hagræðingu í dreifingu eru fyrirliggjandi tankar og dreifibúnaður sem hægt væri að nýta. Enn er ekki fullljóst hvort grípa þurfi til svo viðamikilla aðgerða í tengslum við litun líkt og olíufélögin ganga út frá í kostnaðarútreikningum sínum.

Þá er ljóst að olíugjaldið verður að að endurspegla notkun á vegakerfinu. Stórir bílar slíta vegum margfaldlega á við litla bíla. Það er ekki hægt að komast undan því að þessi staðreynd endurspeglist í gjaldbyrðinni. Sé pólitískur vilji til að niðurgreiða flutninga verður að gera það með sértækum sköttum en ekki með dulinni skattheimtu á fjölskyldubíla. Auknar virðisaukaskattstekjur ríkissjóðs eiga líka að skila sér í frekari lækkun olíugjaldsins til allra notenda, ekki eingöngu til sérvalinna hópa."

Þá benti Runólfur á að sárafáir fólksbílar á Íslandi væru dísilknúnir utan leigubílar. Helst væru það jeppar og þaðan af stærri bílar sem væru dísilknúnir og væri þetta á skjön við þróunina í Evrópu þar sem rúmlega helmingur fólksbíla eru dísilknúnir og fer fjölgandi. Þessu væri öfugt farið í Bandaríkjunum þar sem bensín væri lágskattað og dísilolía dýrari en í Evrópu. Vegna skattbyrði væri hins vegar leitað eftir meiri hagkvæmni í Evrópu og því væri gildi dísilbíla meira.