OPEL ætlar að vera senuþjófurinn á bílasýningunni í Genf sem hefst í næstu viku. Þar sýnir fyrirtækið GTC hugmyndabílinn sem gefur vissar hugmyndir um hvernig ný kynslóð Astra, sem kemur á markað 2004, mun líta út. Ólíklegt þykir þó að framleiðslubíllinn haldi sama framsvip, jafnstórum hjólum og vindskeiðum GTC en
Martin Smith, yfirmaður hönnunar, segir að GTC sýni hugmynd Opel um þriggja dyra sportlegan hlaðbak.
Astra kemur fyrst á markað í fimm dyra gerð. Hálfu ári síðar má búast við sportlegri, þriggja dyra bíl. GSi-gerð, sem byggist á GTC-hugmyndabílnum, á síðan að koma á markað 2005. Nýrrar kynslóðar Astra bíður það verkefni að kljást við keppinauta eins og nýjan Ford Focus og VW Golf. Samkeppnin verður því harðari í þessum stærðarflokki en nokkru sinni áður. Opel ætlar að láta til sín taka m.a. með breiðara úrvali véla en áður ásamt djarfara útliti.
Aðdáendur sportbíla ættu að gleðjast yfir GSi-útfærslunni því hún verður knúin 2ja lítra vél úr vopnabúri Saab, fjögurra strokka með forþjöppu sem skilar 250 hestöflum. Aðrar bensínvélar verða gerbreyttar að gerð þökk sé nýrri Twinport-ventlatækni Opel, sem er sögð draga úr eldsneytiseyðslu um 6%.
Sú minnsta, 1,4 lítra, er sögð verða sparneytnasta bensínvélin af þessari stærð sem nokkru sinni hafi verið smíðuð. Einnig er Opel að hanna nýja 1,6 lítra vél með forþjöppu og 1,8 og 2,0 lítra vélarnar verða með öðru sniði sem henti betur mikilli notkun með fyrirtæki í huga. Aflmesta vélin verður 2,2 lítra mótorinn sem menn þekkja úr Vectra og er einhver fágaðasta fjögurra strokka bensínvél sem fáanleg er.
Opel ætlar einnig að höfða til kaupenda með nýjum gírkössum. Auk þess að bjóða upp á sex gíra beinskiptingu verða í boði Easytronic-hálfsjálfskipting og jafnvel þreplaus CVT-reimskipting. Einnig hefur heyrst að móðurfélagið, GM, íhugi að aðlaga Selespeed-gírkerfið, sem er takkaskipting í stýri, fyrir dýrustu gerðirnar.