VOLKSWAGEN Touareg sameinar fullboðlega eiginleika til aksturs utan vega og til aksturs í borginni. Þar fylgir VW þróun sem hefur átt sér stað undanfarin misseri hjá bílaframleiðendum sem elta markaðinn og kröfur kaupenda eins og skottið á sér. Menn vilja aflmikla lúxusjeppa, sem á malbikinu eru eins og hágæða fólksbílar í akstri, og gefa jafnframt grindarbyggðum jeppum ekkert eftir í drifgetu utan vega. VW-menn voru lengi að taka við sér og bjóða valkost inn á þennan ört vaxandi markað en nú er hann kominn í líki Touareg og bíllinn var biðarinnar fullkomlega virði.
Touareg er alls enginn alþýðuvagn, enda skýr stefna hjá VW að færa framleiðsluna að hluta í lúxusflokk og nú þegar eru komnir tveir bílar alla leið þangað, þ.e. lúxusfólksbíllinn Phaeton og lúxusjeppinn Touareg.
Rennilegur og aflmikill
Touareg er jeppi með sambyggða yfirbyggingu og grind og búinn einu fullkomnasta fjórhjóladrifskerfi sem á boðstólum er. Hann er boðinn hérlendis með tveimur vélargerðum enn sem komið er, þ.e. V6 220 hestafla bensínvél og V10 313 hestafla dísilvél. Innan tíðar bætist síðan við V8, 312 hestafla bensínvél. Við prófuðum bílinn nýlega við íslenskar aðstæður með V6 vélinni og loftpúðafjöðrun.Bílnum er sem best lýst í þremur orðum: Aflmikill, fágaður og ríkmannlegur. Hann lætur í raun lítið yfir sér að utan og virkar á marga við fyrstu sýn eins og hann sé nú ekki til stórræðanna. Kannski eins og ofvaxinn langbakur eða jepplingur með stórum hjólum. En umfram allt virðast hönnuðir hafa haft að leiðarljósi að gera bílinn rennilegan og hæfan til að kljúfa loftmótstöðu með sem minnstri fyrirhöfn. Á grillinu og afturhleranum eru risavaxin einkennismerki VW, framlugtirnar eru fíngerðar linsulugtir en að aftan eru stórar afturlugtir á bretti og ná út á afturhlera. Krómlistar eru umhverfis glugga og á sílsum og grilli. Allt er fremur stórt og traustvekjandi í sniðum; t.a.m. hliðarspeglar og hurðarhúnar. Í hliðarspeglunum neðanverðum eru stefnuljós sem setja bæði fallegan svip á bílinn og auka umferðaröryggið.
Lykillaust aðgengi
VW-mönnum hefur sannarlega tekist vel upp í hönnun innanrýmisins. Bíllinn slær út alla keppinauta sína í frágangi, efnisvali og stíl. Sætin eru stór og styðja vel við líkamann og milli framsæta er stór geymslustokkur sem er hreyfanlegur og virkar vel sem armhvíla. Ökumannssætið er með upphitun. Í prófunarbílnum voru framsætin með rafstillingu og minni og öll sætin leðurklædd. Þetta er aukapakki sem kostar 450.000 kr. Sömuleiðis var prófunarbíllinn með lykillausu aðgengi að hurðum sem er sérlega þægilegur búnaður. Í stað þess að þrýsta á hnapp til að opna hurðir er nóg að vera í námunda við hurðir með lykilinn í vasanum til þess að þær opnist. Ekki þarf heldur að taka lykilinn upp þegar inn í bílinn er komið heldur nóg að þrýsta á hnapp í námunda við gírstöngina til að ræsa bílvélina. Þegar bíllinn er síðan yfirgefinn nægir að þrýsta á hnapp í hurðarhúninum utanverðum til að læsa bílnum.Lengi er hægt að dveljast við smáatriði í hönnun og útbúnaði bílsins en um leið verður að gæta þess að margt af þessu er aukabúnaður og kostar sitt. Þannig er t.d. fjögurra svæða loftfrískunarbúnaður, viðarskreyting í mælaborði, fjölrofa stýrishjól og sóllúga, svo fátt eitt sé nefnt, aukabúnaður. Meðal aukabúnaður eru einnig raflæsingar á fram- og afturdrifi.
Duglegur utan vega
Af framansögðu mætti ætla að hér væri fyrst og fremst um malbiksbíl að ræða en svo er þó alls ekki. Touareg hentar ekki síður til aksturs utan vega. Veghæðin er 23,7 cm þegar bíllinn er á gormafjöðrun og allt að 30 cm á loftpúðafjöðrun, og hjólhafið er mikið. Hann er líka með háu og lágu drifi og mismunadrifslæsingu. Þá eru fáanlegar læsingar á fram- og afturhásingu. Bíllinn sem var prófaður var með loftpúðafjöðrun sem er lúxus sem kostar 330.000 kr. aukalega. Með henni er sem sagt hægt að hækka veghæðina í 30 cm og þá er bíllinn líka fær í flest, ekki síst í djúpan snjó. Sömuleiðis er hægt að lækka veghæðina niður í 16 cm, sem hentar vel við hraðakstur og þegar verið er að hlaða bílinn. Auk þess eru stillingar á fjöðruninni og hægt að velja á milli sportlegrar fjöðrunar, þæginda eða sjálfvirkrar stillingar og ræðst þá stífni fjöðrunarinnar af vegyfirborðinu.Í Touareg er ný kynslóð fjórhjóladrifskerfis sem er algerlega rafeindastýrt. Þetta er búnaður sem er ekki allajafna fyrir augunum á mönnum en önnur skynfæri verða hans áþreifanlega vör. Þegar t.d. farið er yfir skorninga og miklar ójöfnur heyrast skruðningar frá undirvagninum; ekki ósvipað hljóð og þegar stigið er af afli á ABS-hemla. Hljóðið kemur frá mismunadrifslæsingu í miðri drifrásinni, sem er fyrir aftan gírkassann. Í venjulegum akstri er 50/50 dreifing á drifafli til fram- og afturhjóla. Mismunadrifið flytur hins vegar drifafl sjálfvirkt til öxlanna eftir þörfum. Þetta er nýjung og ætti að nýtast þeim sérstaklega vel sem nota bílinn við krefjandi aðstæður. Við vissar aðstæður, svo sem ef framhjól spólar í aurbleytu, flytur kerfið allt að 100% af drifaflinu til afturöxulsins, þar sem gripið er meira. En að auki er hægt að læsa afturdrifinu 100% handvirkt og yfirtaka þar með sjálfvirknina. Drifkerfið kallar VW sítengt 4XMotion.
En um leið er bíllinn sportlegur og hljóðlátur á malbikinu. ESP-stöðugleikastýring er staðalbúnaður en hægt er að aftengja hana vilji menn ráða meira um aksturinn. En þá finnst líka að bíllinn getur átt það til að ofstýra en þá er bara að draga andann djúpt og stýra í þá stefnu sem afturendinn tekur; eða, sem er mun einfaldara, að nýta sér ESP-búnaðinn.
Verðið fljótt að hækka
V6 vélin er 3,2 lítrar og gefur þessum 2,2 tonna þunga bíl frísklega vinnslu og um leið skemmtilega dempað V6-hljóð. Að öðru leyti er bíllinn afar vel einangraður og þótt ekið væri á negldum vetrarhjólbörðum varð ekki vart við áberandi dyn inn í farþegarýmið. Við vélina er tengd mjög virk og skemmtileg sex þrepa Tiptronic-sjálfskipting og skákar VW þar keppinautunum, að Porsche undanskildum. Menn velja síðan um hvort þeir láta rafeindatæknina um skiptingar eða handskipta bílnum sjálfir. Sjálf gírstöngin og gírhliðið er meistarasmíði út af fyrir sig.Touareg kostar í grunnútgáfu 5.470.000 kr. og fyrir það verð fæst vel búinn og fjölhæfur jeppi. Meðal staðalbúnaðar eru m.a. 17 tommu álfelgur, Tiptronic-skiptingin, ESP-stöðugleikastýring, ASR-spólvörn, ABS-hemlakerfi, EBD-hemlunarjöfnunarkerfi, sex loftpúðar, hraðastillir, tveggja svæða loftræstibúnaður, regnskynjari fyrir framrúðu, fjöldiska geislaspilari og margt fleira. Fullyrða má að verðið er að mörgu leyti lægra en vænta hefði mátt. En um leið má benda á að aukabúnaðurinn fæst engan veginn gefins og er verðið fljótt að hækka verulega sé mikið tekið af honum. Í prófunarbílnum var aukalega loftpúðafjöðrunin, rafstýrð leðursæti, 18 tommu álfelgur, lyklalaust aðgengi, Bi-Xenon-ljós, fjölrofa stýrishjól og viðarklæðning í mælaborði. Með þessum búnaði er verðið komið í 6.770.000 kr.
gugu@mbl.is