ÞAÐ er að mörgu að hyggja þegar fest eru kaup á notuðum bíl. Yfirleitt er um mikla fjárfestingu að ræða og því mikilvægt að ganga úr skugga um að ekki sé verið að kaupa köttinn í sekknum. Þótt notaðir bílar fari árlega í almenna skoðun miðast sú skoðun að mestu við það hvort bifreiðin sé í öryggishæfu ástandi þegar skoðunin fer fram. Miklu mikilvægara er að láta ástandsskoða bifreið sem kemur til greina á skoðunarstöð eða hjá faggiltu verkstæði. Einnig er gott að hafa eftirfarandi lista í huga þegar bíll er skoðaður. Listinn er ættaður frá FÍB.
*Er lakk skemmt eða sést ryð?
*Athugið með segli hvort gert hafi verið við með plastfylliefnum. Segullinn dregst aðeins að járni.
*Bendir eitthvað til að bíllinn hafi skemmst í árekstri?
*Bankið í bretti þar sem þau er fest og í kringum lugtir
*Athugið hugsanlega ryðmyndun og frágang ryðvarnar í hjólbogum.
*Athugið hvort yfirbygging hafi skekkst.
*Falla hurðir vel að?
*Er framrúða rispuð eða skemmd eftir steinkast?
*Lyftið gólfmottum til að kanna hugsanlega ryðmyndun. Athugið einnig undir mottu í farangursgeymslu og undir varadekkið.
*Þefið af teppum, myglulykt getur bent til leka.
*Skrúfið rúðurnar upp og niður, athugið slit í lömum með því að lyfta undir hurðir.
*Athugið kælivatn á vél - engin olía má vera í vatninu. Olía í kælivatni gæti bent til þess að "headpakkning" sé léleg eða að blokkin sé sprungin.
*Eru óhreinindi eða olía utan á vélinni?
*Athugið hvort dropar séu undir bifreiðinni. Kanna þarf hvort um sé að ræða vélarolíu, bensín, bremsuvökva, kælivatn eða annað. Sé leki getur viðgerð verið kostnaðarsöm.
*Lítur bifreiðin almennt út fyrir að vera illa hirt?
*Athugið rafgeymi, er útfelling við pólana?
*Mælið olíu á vélinni. Lítil eða óeðlilega þykk olía bendir til að vélin sé mjög slitin.
*Athugið smurþjónustubók.
*Athugið hjólbarða. Raufar í
*Hjólbarðar eiga allir að vera af sömu gerð. Skoða þarf hvort hjólbarðar séu misslitnir. Ekki má vera hlaup í hjólum.
*Eru felgur dældaðar, það getur verið ábending um að bílnum hafi verið ekið óvarlega.
*Ræsið vélina. Hlustið eftir óeðlilegum hljóðum.
*Athugið útblásturskerfið.
*Er hlaup í stýri?
*Stígið fast á hemlafetil. Fótstig á ekki að fara alveg í botn, heldur á að vera gott bil niður að gólfi.
*Athugið höggdeyfa með því að ýta á aurbretti yfir hverju hjóli. Haldi bíll áfram að fjaðra geta höggdeyfar verið bilaðir eða ónýtir.
*Athugið kílómetramæli. Berið álestur saman við almennt útlit og aldur bifreiðarinnar. Reikna má með að meðalakstur sé um 15.000-18.000 km á ári.