Robert Townsend átti að sögn "ágæta spretti" á mjög svo vænu uppistandi.
Robert Townsend átti að sögn "ágæta spretti" á mjög svo vænu uppistandi.
Uppistand í Háskólabíói föstudaginn 21. febrúar. Fram kom bandaríski grínistinn Robert Townsend. Á undan hituðu upp Sigurjón Kjartansson, Þorsteinn Guðmundsson og Pétur "Ding-Dong" Sigfússon. Kynnir var Rajeem.

ÞAÐ var blásið til stórskemmtunar í Háskólabíói sl. helgi, hinn heimsfrægi kvikmyndaleikstjóri, framleiðandi og leikari Robert Townsend var með uppistand ásamt íslenskum starfsbræðrum sínum. Townsend þessi er nú reyndar ekki neitt heimsfrægur hér á landi, myndir hans hafa fæstar verið sýndar hér og tæplega hafa þeir verið margir áhorfendurnir sem könnuðust við nafn hans áður en kynningarherferð fyrir uppistandið fór af stað. Það breytti hins vegar ekki því að stærsti salur Háskólabíós var smekkfullur á föstudagskvöldið og aukasýningu var bætt við á laugardaginn.

Kynnir kvöldsins var að stíga sín fyrstu spor í opinberu uppistandi. Hann kallar sig Rajeem, klæðir sig sem Indverja og talar ensku með fremur hjákátlegri blöndu af íslenskum og indverskum hreim. Grínið var að mestu leyti á kostnað Asíu-búa og var, burtséð frá pólitískri rétthugsun, afar lítið fyndið.

Fyrstur eiginlegra upphitara var Sigurjón Kjartansson. Þessi "ég-nenni-þessu-eiginlega-ekki-stíll" sem Sigurjón hefur tamið sér er ákaflega vandmeðfarinn og krefst þess að hver einasti brandari sé fyndinn, sem Sigurjón hefur ekki alveg á valdi sínu. Sigurjón átti þó mjög fína spretti inni á milli og skilaði vel volgnandi sal til næsta upphitara sem var Þorsteinn Guðmundsson. Þorsteinn var greinilega í miklu stuði því alveg frá fyrstu bröndurum hélt hann salnum í hláturgíslingu, varð varla fótaskortur á fyndninni og þegar hann lauk sínu atriði var salurinn orðinn sjóðheitur og tilbúinn fyrir erlendu stórstjörnuna.

Eftir sæmilegt hlé steig á svið blökkumaður nokkur og fyrst í stað hvarflaði að manni að þarna væri Townsend mættur, bara örlítið íturvaxnari en á myndum. Svo reyndist þó ekki vera heldur var þetta ónefndur landi hans sem af einhverjum ástæðum var leyft að þreyta uppistandsfrumraun sína þarna. Hann var einkennilega laus við að vera fyndinn auk þess sem illa skildist hvað hann sagði þar sem hann ráfaði um sviðið með hljóðnemann alltof nálægt munninum. Stemningin í salnum tók nokkra dýfu við þetta pínlega innlegg.

Hafi menn haldið að komið væri að aðalréttinum skjátlaðist þeim, alla vega ef þeir miðuðu við auglýsta dagskrá. Í stað Townsends sté á svið Pétur "Ding-dong" Sigfússon og var vel tekið. Hann var líka með stórfínt og smellfyndið atriði en þegar því lauk var upphitun búin að standa yfir í hátt í tvo klukkutíma og það eru takmörk fyrir því hve lengi fólk getur hlegið.

En nú var komið að því. En áður en Townsend steig á svið var spilað myndband með brotum úr bíómyndum hans (sem fæstir, ef nokkur, viðstaddur hefur séð) sýnt með glymjandi tónlist undir. Þegar því lauk kom vandræðaleg þögn og leið dágóð stund áður en menn áttuðu sig og klöppuðu. Það er skemmst frá því að segja að uppistand Roberts Townsends olli nokkrum vonbrigðum. Hann átti að vísu ágætisspretti inni á milli en snilldin sem maður hafði gert sé vonir um lét ekki á sér kræla. Hann talaði of mikið án þess að vera sérlega fyndinn og eftirhermur hans voru heldur klénar þótt þær væru ágætlegar gerðar. Lokaatriði hans var svo alveg misheppnað og sat maður bara með stirnað bros undir því. Ég ráðlegg því skipuleggjendum uppákomna af þessu tagi að halda sig við áður auglýsta dagskrá. Ég minnist þess allavega ekki að hafa áður sótt "gigg" hjá erlendri stórstjörnu þar sem annars uppklöppunaróðir Íslendingar klappa kurteislega á meðan viðkomandi hneigir sig og reyna svo að drífa sig út, búnir að fá alltof mikið fyrir peninginn.

Ármann Guðmundsson

Höf.: Ármann Guðmundsson