STOFNFISKUR hf. hefur keypt öll hlutabréf í írska fyrirtækinu Galway Aquatic Enterprise Ltd. (GAEL) sem verður hluti af dótturfélagi Stofnfisks í Írlandi.

STOFNFISKUR hf. hefur keypt öll hlutabréf í írska fyrirtækinu Galway Aquatic Enterprise Ltd. (GAEL) sem verður hluti af dótturfélagi Stofnfisks í Írlandi.

Stofnfiskur er stærsti framleiðandi á Íslandi á laxahrognum og er nú með alls fimm starfsstöðvar, fjórar á suðvesturhorni landsins og eina á Norðurlandi. Fyrirtækið er auk þess leiðandi í kynbótarannsóknum fyrir fiskeldi. Galway Aquatic er seiðaframleiðslufyrirtæki og framleiðir milli 4-5 milljónir laxaseiða fyrir áframeldi á ári.

Vigfús Jóhannsson, framkvæmdastjóri Stofnfisks, segir að með kaupunum skapist tækifæri fyrir Stofnfisk að útvíkka starfsemi sína og komast lengra inn í framleiðsluferlið. Hann segir að Stofnfiskur hafi átt í nánu samstarfi við Galway Aquatic um margra ára skeið og átt lítinn hluta í félaginu.

"Fyrirtækið býr við mjög góðar aðstæður, þar eru vatnsgæði mikil og það uppfyllir ströngustu heilbrigðiskröfur. Þessi kaup opna okkur þannig dyr inn á markaði Evrópusambandsins, meðal annars Skotland, þar sem eru mikil umsvif í fiskeldi. Jafnframt munu þessi kaup gefa okkur tækifæri til uppbyggingar á öðrum eldistegundum en laxi, tegundum sem hentar betur að ala innan landa Evrópusambandsins. Eins má nefna að á Írlandi eru stundaðar mjög öflugar rannsóknir á sviði fiskeldis sem munu á efa nýtast okkur í framtíðinni og við munum leggja áherslu á ýmis rannsókna- og þróunarverkefni þar."

Vigfús segir að ekki sé fyrirhugað að flytja neitt af núverandi starfsemi Stofnfisks á Íslandi til Írlands. Hann segir að viðskipti Stofnfisks við laxeldisfyrirtæki í Skotlandi hafi vaxið ört á undanförnum árum og með kaupunum á írska fyrirtækinu verði hægt að færa þjónustuna nær viðskiptavinunum. "Megin markmiðið með kaupunum er að njóta þeirrar tækniþekkingar sem fyrir hendi er á Írlandi og nálægðar við markaðinn. Þannig hyggjumst við styrkja enn stoðir fyrirtækisins og leggja grunn að enn meiri vexti," segir Vigfús.