Roh Moo-hyun, nýr forseti Suður-Kóreu, ásamt konu sinni, Kwon Yang-sook, við embættistökuna í gær.
Roh Moo-hyun, nýr forseti Suður-Kóreu, ásamt konu sinni, Kwon Yang-sook, við embættistökuna í gær.
TILRAUN Norður-Kóreumanna með skammdræga eldflaug hefur valdið aukinni spennu þótt stjórnvöld í grannríkjunum og Bandaríkjunum vilji ekki gera of mikið úr málinu.

TILRAUN Norður-Kóreumanna með skammdræga eldflaug hefur valdið aukinni spennu þótt stjórnvöld í grannríkjunum og Bandaríkjunum vilji ekki gera of mikið úr málinu. Varð eldflaugarskotið til að valda nokkurri gengislækkun á fjármálamörkuðum í Japan og annars staðar í Asíu og varpaði einnig nokkrum skugga á embættistöku Roh Moo-hyuns sem forseta Suður-Kóreu.

Hermálayfirvöld í Japan og S-Kóreu sögðu, að eldflauginni, sem er ætlað að granda skipum, hefði verið skotið í fyrrakvöld frá norðausturströnd N-Kóreu og hefði hún lent í Japanshafi. Talsmaður Bandaríkjastjórnar vildi ekki gera of mikið úr tilrauninni en hún var gerð nokkrum klukkustundum áður en Roh Moo-hyun sór embættiseið sem nýr forseti S-Kóreu í Seoul. Meðal viðstaddra við athöfnina voru Colin Powell, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Junichiro Koizumi, forsætisráðherra Japans, og Alexander Downer, utanríkisráðherra Ástralíu.

Downer sagði, að eldflaugartilraun N-Kóreumanna á þessum tíma væri ótrúlega ósvífin og ögrandi en Powell vildi ekki gera of mikið úr málinu og sagði, að vitað hefði verið, að tilraunin stæði fyrir dyrum auk þess sem um gamlan vopnabúnað hefði verið að ræða. Japanskir embættismenn tóku í sama streng en þeir og japönsk stjórnvöld fylgjast grannt með því, sem er að gerast í N-Kóreu og hafa af því miklar áhyggjur.

Japanar áhyggjufullir

Í ágúst 1998 skutu N-Kóreumenn langdrægri, margþrepa eldflaug yfir Japan og út í Kyrrahaf. Með því sýndu þeir, að þeir réðu yfir eldflaugum, sem unnt væri að skjóta á Japan og búnum kjarnasprengjum ef því væri að skipta. N-Kóreustjórn hét því síðast í haust að hætta slíkum tilraunum en s-kóreska varnarmálaráðuneytið telur hins vegar, að N-Kóreumenn séu að gera ýmsar tilraunir með Taepodong-1-eldflaugar, sem draga 2.500 km, og séu að auki að þróa enn langdrægari flaugar.

Við embættistökuna í gær hvatti Roh N-Kóreustjórn til að kasta kjarnorkuáætlunum sínum fyrir róða og sagði, að þannig gæti hún tryggt sitt eigið öryggi og alþjóðlega aðstoð við landið. Powell kvaðst telja, að Roh skildi og væri samþykkur stefnu Bandaríkjanna gagnvart N-Kóreu.

Seoul, Tókýó. AP, AFP.

Höf.: Seoul, Tókýó. AP, AFP