RÚSSNESKI sagnfræðingurinn Edvard Radzinski fullyrðir að samstarfsmenn Jósefs Stalíns hafi byrlað honum eitur til að koma í veg fyrir að hann hæfi þriðju heimsstyrjöldina. Þetta kom fram í fræðsluþætti sem breska útvarpið sendi út á mánudaginn var í tilefni af því að 5. mars verður hálf öld liðin frá því að Stalín lést.
Kvöldið 28. febrúar 1953 byrjaði eins og venjulega hjá Stalín og nánustu samstarfsmönnum hans, Lavrentí Bería, Níkíta Khrústsjov, Nikolaj Búlganín og Georgí Malenkov. Þeir horfðu á kvikmynd í Kreml og héldu síðan í hús Stalíns nálægt Moskvu til að halda enn eina drykkjuveisluna.
Um nóttina fóru gestirnir heim til sín. Stalín er sagður hafa skipað vörðum sínum að ganga til hvílu og þeir máttu ekki trufla hann.
Radzinski þótti mjög undarlegt að Stalín skyldi hafa gefið þessi fyrirmæli vegna þess að hann var gagntekinn af áhyggjum af öryggi sínu, að því er fram kom í "Síðasta leyndardómi Stalíns", þætti BBC Radio 4 um síðustu dagana í lífi einræðisherrans.
Lífvörður leysir frá skjóðunni
Ýmsar kenningar hafa komið fram um dauða Stalíns, sumir segja að hann hafi látist af völdum heilablæðingar en aðrir að hann hafi verið myrtur. Radzinski var staðráðinn í að afhjúpa leyndardóminn um dauða Stalíns og fyrir nokkrum árum hafði hann uppi á einum af vörðum einræðisherrans þetta kvöld, Pjotr Lozgatsjev. Frásögn hans varð kveikjan að tilgátu Radzinskis.Lozgatsjev staðfesti að það var ekki Stalín sem skipaði vörðunum að ganga til hvílu, heldur aðalvörður hans, Khrústalev.
"Stalín átti það til að hæðast að vörðunum með því að spyrja "viljiði fara í rúmið? - og stara í augu okkar," sagði Lozgatsjev. "Eins og við hefðum þorað það! Við vorum þess vegna fegnir þegar við fengum þessi fyrirmæli og fórum í rúmið án þess að hugsa okkur um tvisvar."
Verðirnir sváfu fram eftir og þegar þeir vöknuðu héldu þeir að Stalín vildi sofa út. Þeir biðu í margar klukkustundir og ekkert bólaði á Stalín.
Verðirnir voru orðnir áhyggjufullir en enginn þeirra þorði að fara inn í herbergi Stalíns. Þangað máttu þeir ekki fara nema hann bæði þá um það sjálfur.
Klukkan 6.30 kviknaði ljós í herbergi Stalíns og verðirnir róuðust. En þegar klukkan var orðinn tíu voru þeir orðnir stjarfir af hræðslu. Að lokum var Lozgatsjev sendur til að athuga hvort eitthvað amaði að Stalín.
"Ég flýtti mér til hans og spurði: "Félagi Stalín, hvað er að? Hann átti það til að væta sig þegar hann lá þarna," sagði Lozgatsjev. "Frá honum komu einhver torkennileg hljóð, eins og "ds ds". Vasaúrið hans og eintak af Prövdu lágu á gólfinu. Úrið sýndi 6.30. Þá hlýtur þetta að hafa komið fyrir hann."Verðirnir hringdu strax í drykkjufélaga Stalíns, forsætisnefnd kommúnistaflokksins. Radzinski þykir það grunsamlegt hversu seinir þeir voru að bregðast við og kalla í lækni.
Vissu þeir of mikið og þurftu því ekki að flýta sér til "gamla mannsins"? Radzinski telur svo vera.
Myrtur að fyrirmælum Beria?
Sagnfræðingurinn heldur því fram að vörðurinn Khrústalev hafi byrlað Stalín eitur að fyrirmælum yfirboðara síns, Lavrentís Bería, yfirmanns öryggislögreglunnar KGB. Radzinski telur sig einnig vita hvers vegna Stalín hafi verið myrtur."Allir sem umgengust Stalín vissu að hann vildi stríð - þriðju heimsstyrjöldina - og hann ákvað að búa landið undir þetta stríð," hefur BBC eftir Radzinski. "Stalín sagði: "Við höfum tækifæri til að skapa kommúníska Evrópu en við þurfum að hafa hraðan á. En Bería, Khrústsjov, Malenkov og allir eðlilegir menn skildu að það væri hræðilegt að hefja stríð gegn Bandaríkjunum vegna þess að Rússland var fjárvana. Það var ekki fátækt, heldur sárafátækt, landið hafði verið eyðilagt í innrás Þjóðverja, átti engan þjóðarauð, aðeins kjarnavopn."
"Þetta var ástæðan fyrir herferð Stalíns gegn gyðingum, það var ögrun," hélt Radzinski áfram. "Hann vildi að Bandaríkin svöruðu. Og Bería vissi að Stalín hafði ráðgert að hefja brottflutning gyðinga frá Moskvu 5. mars."
BBC tekur fram að ekki sé óalgengt að samsæriskenningar hrannist upp í Rússlandi, að ein kenning geti af sér aðrar. Nokkrir borgarbúar segja að rútum hafi verið lagt út um alla Moskvu til að flytja í burtu gyðinga. Aðrir sáu sérstök geymsluhús sem sögð eru hafa verið reist í Kasakstan til að hýsa brottrekna gyðinga.