Ragnar Guðmundsson
Ragnar Guðmundsson
RAGNAR Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Norðuráls, segir að fyrstu niðurstöður Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu og ákvörðun um áframhaldandi viðræður séu jákvæðar fréttir fyrir Norðurál og mikilvægur áfangi í þá átt að stækkun álversins...

RAGNAR Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Norðuráls, segir að fyrstu niðurstöður Landsvirkjunar um Norðlingaölduveitu og ákvörðun um áframhaldandi viðræður séu jákvæðar fréttir fyrir Norðurál og mikilvægur áfangi í þá átt að stækkun álversins verði að veruleika. Framkvæmdum seinki þó um eitt ár, miðað við upphaflegar áætlanir fyrirtækisins.

"Þetta þýðir að við getum farið að leita í fullri alvöru eftir samningum um fjármögnun stækkunarinnar og sölu aukinnar framleiðslu. Ég geri ráð fyrir að endanleg mynd verði komin á þetta eftir fjóra til sex mánuði. Að þeim tíma loknum ætti að vera hægt að taka endanlega ákvörðun um stækkunina. Þetta er hins vegar mjög mikilvægur áfangi í því að koma málinu vel áfram," segir Ragnar en stækkun Norðuráls er talin kosta fyrirtækið um 25 milljarða króna.

Ragnar segir að upphaflega hafi Norðurál verið með óskir um að stækkað álver, með 180 þúsund tonna ársframleiðslu, yrði tekið í notkun undir lok árs 2004. Nú sé ljóst að því seinki um að minnsta kosti eitt ár. Það eigi þó ekki að hafa alvarleg áhrif. Þá gera áætlanir ráð fyrir að álver Norðuráls verði stækkað í 240 þúsund tonn árið 2009.

"Við höfum ekki sett mönnum neina úrslitakosti hvað dagsetningar varðar heldur reynt að vinna sameiginlega að því að finna lausnir sem allir geta lifað með. Umhverfismatsferlið tók lengri tíma en við sáum fyrir í upphafi en nú er því lokið," segir Ragnar.

Endurskoðun skattasamnings

Eitt af því sem Norðurál hefur óskað eftir við stjórnvöld er endurnýjun á fjárfestingarsamningi við stjórnvöld. Að sögn Ragnars var fyrst farið fram á slíkar viðræður vorið 2001 en núgildandi samningur frá árinu 1996 miðast við ákveðna stærð álvers, ákveðin fasteignagjöld, skattprósentur og fleiri atriði. Norðurál hefur m.a. óskað eftir því að greiða sambærilegan tekjuskatt og Alcoa samdi um, þ.e. 18%, en Norðuráli ber að greiða 33% tekjuskatt líkt og Alcan í Straumsvík. Viðræður um fjárfestingarsamninginn hófust þegar í gær með fulltrúum iðnaðarráðuneytisins.