SAMNINGUR um samstarf Prokaria og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri um rannsóknir og kennslu í líftækni hefur verið undirritaður.

SAMNINGUR um samstarf Prokaria og auðlindadeildar Háskólans á Akureyri um rannsóknir og kennslu í líftækni hefur verið undirritaður. Samningurinn treystir það samstarf sem var á milli starfsmanna stofnanana tveggja, jafnframt því sem Prokaria mun sjá um kennslu í nýju líftækninámi við auðlindadeild háskólans.

Eyjólfur Guðmundsson, deildarforseti auðlindadeildar, sagði að samningurinn markaði tímamót í starfsemi deildarinnar, því henni væri mikilvægt að vera í góðu samstarfi við þá sem nýttu auðlindirnar.

Jakob K. Kristjánsson, forstjóri Prokaria, kynnti starfsemi fyrirtækisins við undirritunina en um er að ræða líftæknifyrirtæki sem nýtir nýjustu tækni við rannsóknir og hagnýtingu á erfðaefni úr íslenskri náttúru og er megináherslan lögð á ensím úr hveraörverum. Fyrirtækið á nú yfir 5 þúsund örverur, eigin erfðamengi 5 bakteríutegunda og 5 veirutegunda, en Prokaria er eina fyrirtækið í heiminum sem hefur einangrað og raðgreint hitakærar veirur.

Í tilefni af samningnum við Háskólann á Akureyri hafa forsvarsmenn Prokaria ákveðið að veita íslenskum vísindamönnum og háskólanemum aðgang að erfðaupplýsingum til vísindarannsókna og námsverkefna. Erfðaupplýsingar eru á meðal helsu verðmæta fyrirtækisins og tíma þarf til að hagnýta þær. Fyrirtækið mun því ekki birta upplýsingar opinberlega og verða þær lokaðar öðrum enn um sinn. Starfsmenn Prokaria eru 27 talsins og er það eitt öflugasta fyrirtæki í Evrópu sem sérhæfir sig í hveraörverum og vinnslu verðmætra gena beint úr náttúrunni.

Þorsteinn Gunnarsson, rektor Háskólans á Akureyri, sagði mikilvægt fyrir háskólann að tengjast svo öflugu rannsókna- og þekkingarfyrirtæki, "það er mikil lyftistöng fyrir Háskólann á Akureyri að tengjast þeirri öflugu sérfræðiþekkingu sem Prokaria hefur yfir að ráða", sagði Þorsteinn. Hann nefndi að umhverfið á Akureyri og nágrenni væri vænlegt varðandi áframhaldandi uppbyggingu á sviði líftækni og benti m.a. á að mikill áhugi væri fyrir hendi innan sjávarútvegsfyrirtækja bæjarins, " sem vilja byggja upp og þróa líftækni til að auka verðmæti sjávarafla".