"Nýting náttúruauðlinda norðan Vatnajökuls er sjálfstæðismál."

HVERNIG munu komandi kynslóðir dæma þá menn sem stóðu fyrir gerð Kárahnjúkavirkjunar? Hvort verður það þeim til skammar eða sæmdar? Þessari spurningu varpaði Ómar Ragnarsson fram í lok myndar sinnar, Meðan land byggist:

Það umhverfi sem sýnt var og er í umhverfi Kárahnjúkavirkjunar er þeim er þetta ritar nokkuð kunnugt. Ég ólst upp við Jökulsá á Dal, vaknaði við nið hennar og sofnaði út frá honum. Fyrir bragðið veit ég að Jökulsá á sér mörg andlit. Hún er oftast sýnd sem kolgrá forynja, þannig er hún er vafalaust þekktust þeim hluta landsmanna sem upp á síðkastið hafa tekið ástfóstri við ána mína án þess að hafa nokkurntíma barið hana augum nema á mynd. Jökulsá á Dal á sér annað andlit, hún er langtímum saman vatnslítil bergvatnsá frekar blá en grá og ógnar engum sem á annað borð ber virðingu fyrir náttúruöflunum. Þannig verður Jökulsá á Dal þegar búið verður að reisa Kárahnjúkastíflu. Hún verður eftir sem áður samnefnari bergvatnsánna sem tugum saman falla til hennar frá Reykjará innan við Brú út að Héraðsflóa en að mestu laus við skólpið sem til hennar fellur undan Vatnajökli.

Í þeim umræðum sem fram hafa farið um þessa miklu framkvæmd, þá er henni gjarnan stillt upp á móti þjóðgarði norðan Vatnajökuls. Ég hef heyrt það fullyrt að með stofnun þjóðgarðs mætti skapa jafnmörg störf og ætlunin er að gera með virkjun og byggingu álvers í Reyðarfirði. Í mínum eyrum hljómar þetta sem blekking af verstu gerð, m.a. vegna þess að ég veit að fólkið sem heldur þessu fram veit betur. Það er öllum sem til þekkja ljóst hversu fráleitt er að svæðið norðan Vatnajökuls geti tekið á móti tugþúsundum ferðamanna án þess að landið verði örtröð. Það hefur gerst ítrekað á undanförnum sumrum að náttúruvininni Hvannalindum hefur verið lokað vegna hættu á óbætanlegum gróðurskemmdum. Þótt Hvannalindir séu utan þess svæðis sem Kárahnjúkavirkjun hefur áhrif á þá er hún dæmi um viðkvæma vin á þessu gróðursvæði sem um ræðir.

Það er því fráleitt að stilla þjóðgarðshugmyndinni upp sem mótvægi í atvinnusköpun. Friðun svæðisins þýðir að öll nýting þess í atvinnuskyni verður stöðvuð. Það er vissulega sjónarmið en það er óheiðarlegt að segja það ekki berum orðum.

Kárahnjúkavirkjun á að reisa til að breyta náttúruauðlind í verðmæti, sem síðan á að standa undir atvinnu. Þótt framkvæmdin muni bæta hag allra Íslendinga þá verða áhrifin mest á Austurlandi. Við munum Austfirðingar verði af þessum framkvæmdum öðlast bjartari framtíð og möguleika til að byggja upp ákjósanlegt samfélag þar sem rætur okkar eru. Ég skil ekki sjónarmið þeirra sem telja þetta einskisvert. Ég skil ekki sjónarmið þeirra samlanda okkar sem telja Austfirðinga varga í véum fyrir það eitt að vilja nýta náttúruauðlindir fjórðungsins.

Það var væntanlega óvart sem Ómar Ragnarsson vísaði til þeirrar framtíðar sem fjölmargir Íslendingar virðast telja að hæfi Austfirðingum, það var þegar birtist mynd af verndarsvæðum indíána í Bandaríkjunum. Þið verið að virða mér til vorkunnar góðir landar þótt ég velji frekar Kárahnjúkavirkjun með kostum og göllum en þá framtíð sem fellst í verndarsvæðum þar sem byggð er haldið uppi með opinberu styrkjakerfi og árstíðabundinni ferðamennsku.

Í umfjöllun um Kárahnjúkavirkjun hefur mikið verið fjallað um óafturkræf áhrif á náttúru landsins, ég hef hin vegar lítið séð fjallað um óafturkræf áhrif byggðaröskunar á mannlíf á Austurlandi. Þetta þykir mér sérkennilegt. Fólk sem sleppir sér tifinningalega vegna mögulegra áhrifa á norsk hreindýr, breskar gæsir og örfoka mela sem vel að merkja voru einu sinni vaxnir gróðri, það lætur sig engu skipta velferð samborgara sinna á Austurlandi. Virkjun við Kárahnjúka er lykill að því að afkoma alls almennings í landinu verði betri. Við undirbúning þessarar virkjunar hefur verið farið að öllum leikreglum samfélagsins. Á framkvæmdinni voru vegna kröfu náttúruverndarmanna gerðar umfangsmiklar og kostnaðarsamar breytingar. Kröfunni um "lögformlegt umhverfismat" var fylgt út í æsar. Nýting náttúruauðlinda norðan Vatnajökuls er sjálfstæðismál, þeir sem fyrir því berjast eru jafnframt að berjast fyrir efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar. Þeirra sómi mun verða verða uppi á meðan landið er byggt.

Eftir Hrafnkel A. Jónsson

Höfundur er héraðsskjalavörður í Fellabæ.

Höf.: Hrafnkel A. Jónsson