Umræður um hverfalýðræði og aukna hverfaskiptingu í starfsemi Reykjavíkurborgar hafa farið fram á vettvangi borgarstjórnarinnar um nokkurt skeið. Þannig hafa bæði Reykjavíkurlistinn og Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram slíkar hugmyndir fyrir a.m.k.

Umræður um hverfalýðræði og aukna hverfaskiptingu í starfsemi Reykjavíkurborgar hafa farið fram á vettvangi borgarstjórnarinnar um nokkurt skeið. Þannig hafa bæði Reykjavíkurlistinn og Sjálfstæðisflokkurinn lagt fram slíkar hugmyndir fyrir a.m.k. tvennar síðustu borgarstjórnarkosningar, en eðli málsins samkvæmt hefur aðeins Reykjavíkurlistinn verið í aðstöðu til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd.

Ýmsar vísbendingar eru um að brýnt sé að dreifa valdi borgarinnar út í hverfin. Í rannsókn Gunnars Helga Kristinssonar stjórnmálafræðiprófessors, sem út kom á bók sl. vor, kom þannig fram að Reykjavík væri í raun orðin of stór, og þegar svo væri komið, hætti sveitarfélag að ná þeim tilgangi sem sveitarfélögum er ætlaður; að færa starfsemi hins opinbera nær íbúunum.

Gunnar Helgi sýndi í bók sinni fram á að Reykjavík nyti lítillar stærðarhagkvæmni umfram þau sveitarfélög, sem næst henni gengju að stærð. Þá kom skýrt fram að Reykvíkingar eru mun óánægðari með þjónustu síns sveitarfélags en íbúar nágrannasveitarfélaganna. "Stjórnsýslan er flóknari en í öðrum sveitarfélögum, stofnanirnar fleiri, boðleiðirnar lengri og sambandið við íbúana ekki eins náið. Íbúarnir þekkja ekki vel inn á borgarkerfið, finnst þeir ekki geta haft áhrif og eru mun síður ánægðir með sveitarfélagið en íbúar í nærliggjandi sveitarfélögum," segir í bók Gunnars Helga.

Borgarstjórn hefur nú kosið til átta hverfaráða, sem eiga að verða eins konar samráðsvettvangur borgarstjórnar og íbúa hverfanna, og hófu þau starfsemi sl. haust. Tilgangur þeirra er að stytta boðleiðir, en a.m.k. í sumum hverfum borgarinnar hafa íbúar lítið orðið varir við þessi hverfaráð.

Í nýlegri skýrslu Borgarfræðaseturs, sem Svanborg Sigmarsdóttir stjórnmálafræðingur setti saman, eru hugmyndir borgarstjórnar um hlutverk og valdsvið hverfaráðanna sagðar óljósar og að miðað við núverandi fyrirkomulag sé aðkoma almennings að þeim ekki tryggð. "Ef hverfaráð eiga að efla lýðræðið þarf að veita þeim eitthvert ákvarðanatökuvald, skýrt hlutverk innan stjórnkerfisins og skýra leiðbeinandi stefnumótun af hendi lýðræðislega kjörinnar borgarstjórnar," segir í niðurstöðum Svanborgar.

Dagur B. Eggertsson, formaður stjórnkerfisnefndar borgarinnar, hefur hér í blaðinu af þessu tilefni vitnað til norrænna rannsókna, sem sýni að aukin völd hverfisstjórna í borgum annars staðar á Norðurlöndum hafi í litlu eða engu aukið lýðræðislega þátttöku borgaranna eða ánægju þeirra með stjórn borgarinnar, heldur hafi afleiðingarnar birzt í tvöföldun hins pólitíska stjórnkerfis með tilheyrandi óhagræði og kostnaði.

Þá hlýtur sú spurning að koma upp, hvort það liggi ekki beinast við að flytja valdið í a.m.k. sumum málefnum hverfanna beina leið til íbúanna, með því að gefa þeim kost á að segja sína skoðun á þeim, ýmist í leiðbeinandi skoðanakönnunum eða bindandi kosningum. Hvernig ætla menn annars að auka hina lýðræðislegu þátttöku?

Svo mikið er víst að án þess að valdið til ákvarðana sé í raun og veru flutt út til hverfanna, er tómt mál að tala um hverfalýðræði.