Neville Chamberlain forsætisráðherra Breta lét undan yfirgangi nasista árið 1938, skömmu fyrir heimsstyrjöldina síðari. Winston Churchill hélt því fram að það hefðu verið mistök. Hann sagði við Chamberlain: "Þér var gefinn kostur á að velja milli stríðs og vansæmdar. Þú valdir vansæmd og hlýtur stríð."
Í Englandi hefur skapast hefð fyrir hárfínni og oft kaldhæðinni kímni - svokölluðum breskum húmor. Churchill hafði þessa náðargáfu og má segja að hún hafi verið andstæða þess sem hann lýsti í fari ræðumanna á borð við Charles Beresford lávarð: "Áður en þeir stíga upp í pontu, þá vita þeir ekki hvað þeir ætla að segja. Á meðan þeir tala, þá vita þeir ekki hvað þeir eru að segja. Og eftir að þeir eru sestir, þá vita þeir ekki hvað þeir hafa sagt."
Það var mikil upplifun að heyra breskan húmor á uppistandi í The Comedy Store í Lundúnum. Þéttsetinn bekkur áhorfenda hló hjartanlega að beinskeyttum bröndurum um náungann og aldrei meira en þegar aðrir áhorfendur úr salnum voru teknir fyrir.
Sjaldnast áttuðu þeir sig á því að þeir væru í raun að hlæja að sjálfum sér - því brandararnir áttu jafnan víða skírskotun. Enda sagði Jonathan Swift að háðsádeila væri eins konar spegill sem fólk speglaði sig í og sæi ásjónu allra annarra en sína eigin.
Ef einhver ætlaði líka að vera fyndinn og kallaði fram úr salnum, þá var honum umsvifalaust velt upp úr tjöru eins og í villta vestrinu, svo biksvartur var húmorinn. Aðferðafræðin var einföld. Ef framíkallinu var ætlað að vera fyndið, þá var hinn meinti brandari krufinn háðskt af þeim sem stóð á sviðinu. Þegar brandari er strípaður með slíkri greiningu, stendur sá sem sagði brandarann nakinn eftir.
Uppistand hefur löngum tíðkast á Íslandi. Og skemmtikröfur áhorfenda eru ekki síður miklar, þótt skemmtikraftarnir gefi sig út fyrir að hafa annan og virðulegri starfa. Það má segja að uppistandið hefjist fyrir alvöru þegar líður að kosningum. Þá fljúga hnúturnar á milli frambjóðenda og menn sem annars eru samstarfsmenn og jafnvel vinir fara í hár saman.
Á þjóðarsviðinu getur mælskan verið stjórnmálamönnum til framdráttar, en þó getur hún komið þeim í koll. Þannig eru sumir stjórnmálamenn svo hrifnir af eigin mælsku að þeir ráða hreinlega ekki við sig. Þeir ráðast fram á völlinn á röngum tíma og af misráðnum tilefnum. Og eiga fyrir vikið á hættu að vera ekki teknir alvarlega.
Benjamin Disraeli var bent á að róttæklingurinn og mælskumaðurinn John Bright hefði komist áfram af eigin rammleik og væri sjálfskapaður.
"Ég veit hann er það," sagði Disraeli.
"Og hann dáir skapara sinn."
Sumum ræðumönnum finnst sem þeir þurfi að vera grófir og dónalegir til að vera hnyttnir í tilsvörum. Oftast verður það aðeins neyðarlegt og til marks um takmarkaða kímnigáfu eða orðaforða. Listin er að slá andstæðinginn út af laginu án sárinda eða fúkyrðaflaums. Stundum er það gert með því að leggja út af orðum viðkomandi eða jafnvel taka undir með honum.
Af Ólafi Thors eru til margar góðar sögur. Þannig á hann að hafa lofað kjósendum sínum rafmagni á framboðsfundi, en ekki varað sig á því að rafmagnið var nýkomið. Guðmundur I. Guðmundsson þingmaður Alþýðuflokksins stóð þá upp og kveikti ljós í fundarsalnum.
"Þarna sjáið þið," sagði þá Ólafur. "Maður er ekki fyrr búinn að sleppa orðinu, en það er komið í framkvæmd."
Margir fara þá leið að leggja út af orðum andstæðinga sinna, þannig að þau hafi öfug áhrif. Í vorkosningunum árið 1946 héldu sumir því fram að það ættu að vera tveir kjördagar í sveitum. Halldór Kristjánsson á Kirkjubóli var í framboði fyrir Alþýðuflokkinn á móti Ásgeiri Ásgeirssyni, sem síðar varð forseti. Halldór greip fram í á öllum fundum og sagði: "Hvað um tvo kjördaga í sveitum?"
Ásgeir lét sem hann heyrði það ekki þangað til á síðasta fundinum á Suðureyri í Súgandafirði. Þá svaraði Ásgeir: "Mér hefur hingað til nægt einn dagur til að vera kjörinn á þing, en ég efast um að Halldóri nægi tveir."
Það má segja að tilsvörin sem skráð hafa verið á spjöld sögunnar séu flest í þeim dúr, að framíköllum er snúið upp í aulafyndni. Enda er húmor í eðli sínu aulahúmor. Það er ekki hægt að taka hann alvarlega. Gildir þá einu þótt fyrirspyrjandanum hafi verið dauðans alvara. Hnyttni telst víst seint mjög málefnaleg, en áhrifarík er hún.
Hvað geta stjórnmálamenn líka sagt í endalausu argaþrasi kosninganna? Það er nú einu sinni svo að stjórn landsmálanna verður að taka mið af ytri skilyrðum. Ef teflt er fram löngum loforðalista er það ekki trúverðugt af því kringumstæður breytast. Að ætla að halda í þau öll yrði aðeins til marks um þvermóðsku.
Kominn er urgur í frambjóðendur fyrir kosningarnar í vor. Ef til vill er alvaran meiri en á dögum Disraelis og Churchills, Ólafs Thors og Ásgeirs Ásgeirssonar. Nú keppast fjölmiðlar við að sundurgreina miskunnarlaust alla hnyttni sem kastað er fram. Eftir standa berstrípaðir frambjóðendur með langa óskalista, sem þjóðin hefur ekki efni á. Og það er ekkert fyndið.
Eftir Pétur Blöndal pebl@mbl.is