"...svæðisútvörp þjóna vel sínu hlutverki og kappkosta að flytja fréttir frá þessum landshlutum..."

EITT af sameiningartáknum þjóðarinnar er Ríkisútvarpið sjónvarp. Sú stofnun er flestum landsmönnum kær, sérlega þó eldri kynslóð landsmanna, því yngri kynslóðin veltir því síður fyrir sér hver á eða rekur slíka fjölmiðla. Enn er til sú kynslóð sem man eftir þeirri stundu þegar fyrst heyrðist í útvarpi á Íslandi.

Föst áskriftargjöld skekkja um margt samkeppnisstöðu þessara ríkisfjölmiðla við frjálsan útvarps- og sjónvarpsrekstur. Aðferðafræðin við innheimtu er um margt forneskjuleg og sérstæð. Föstu áskriftinni fylgja ýmsar skyldur sem Ríkisútvarpinu ber að uppfylla t.d. varðandi dreifikerfi og fleira. Aðrar skyldur sem erfitt hefur verið fyrir RÚV að rækja er ábyrgð þess gagnvart Sinfoníuhljómsveitinni. Í raun er full ástæða til þess að endurskoða þessi mál.

Lögum samkvæmt ber RÚV að reka svæðisútvarp í hverju landsbyggðarkjördæmi. Nú er svo komið að einungis Suðurkjördæmi nýtur ekki sömu þjónustu og önnur landsbyggðarkjördæmi hvað þetta varðar. Á Norðurlandi vestra er svæðisútvarp, á Ísafirði og á Norðurlandi eystra eru svæðisútvörp og einnig á Akureyri og á Egilsstöðum. Þessi svæðisútvörp þjóna vel sínu hlutverki og kappkosta að flytja fréttir frá þessum landshlutum, landsmönnum til upplýsinga og ánægju. Á Suðurlandi er þetta með allt öðrum hætti. Bráðabirgðasamningur var gerður við litla útvarpsstöð, Útvarp Suðurland, sem hefur verið endurnýjaður á þriggja mánaða fresti um nokkurn tíma. Þar er um lága fjárhæð að ræða og í raun lítið hægt að gera fyrir þá peninga, enda er útvarpsstöðin ekki starfrækt lengur. Einnig eru starfandi, í hlutastörfum, fréttamaður sjónvarps og fréttamaður og þáttagerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu. Þannig er fréttaflutningur stopulli frá Suðurlandi en úr öðrum landshlutum, t.d. eru það alveg undantekningar ef fréttir koma frá þeim landshluta í samantekt landshlutaútvarpsstöðvanna einu sinni í viku.

Það er því brýnt og raunar skylda Ríkisútvarpsins að þjónusta landsbyggðina með svipuðum hætti. Sú er alls ekki raunin í dag. Þess vegna er það krafa okkar Sunnlendinga að komið verði upp svæðisútvarpi í Suðurkjördæmi þannig að sá landshluti njóti sömu þjónustu og aðrir landshlutar af hálfu Ríkisútvarpsins. Suðurkjördæmið spannar yfir Suðurnesin, Suðurlandsundirlendið, til Vestmannaeyja og allt til Hafnar í Hornafirði. Það er á engan hátt viðunandi fyrir íbúa á þessu svæði að sætta sig við að hafa ekki sameiginlegt svæðisútvarp. Á Hvolsvelli er fjarskiptabúnaður, ljósleiðari, sem oft er notaður í beinum útsendingum Ríkissjónvarpsins og Stöðvar tvö með beintengingu m.a. við Vestmannaeyjar sem að sjálfsögðu eiga að tengjast þessu svæðisútvarpi. Nú þarf að bretta upp ermar og koma þessari þjónustu á koppinn sem allra fyrst. Öðruvísi getur RÚV ekki talist útvarp allra landsmanna.

Eftir Ísólf Gylfa Pálmason

Höfundur er alþingismaður.

Höf.: Ísólf Gylfa Pálmason