"SVO eru konur sem harðbanna mér að hætta. Ég verð kannski að vera til hundrað ára aldurs," segir Soffía Þorkelsdóttir sem rekið hefur hannyrðaverslunina Álftá í Keflavík í fimmtíu ár en hún er einnig þekktur myndlistarmaður í bæjarfélaginu.
Soffía stofnaði hannyrðaverslunina á neðri hæð íbúðarhúss síns á Ásabraut 10 í Keflavík á árinu 1953 og þar er búðin enn til húsa. Verslunina kenndi hún við bæinn Álftá á Mýrum þar sem Soffía er fædd og alin upp. "Ég hafði mikinn áhuga á handavinnu og hafði lengi langað til að vera með eitthvað tengt slíku," segir Soffía um aðdragandann að stofnun verslunarinnar. Hún segir að engin handavinnubúð hafi þá verið í Keflavík. Eftir að hún byrjaði hafi verið opnaðar slíkar búðir en allar hætt aftur, sumar eftir stuttan tíma. "Ég var í eigin húsnæði, það var hægara en að vera í dýru leiguhúsnæði," segir Soffía.
Soffía sem orðin er 87 ára er alltaf sjálf í versluninni en segir að dóttir sín, Ása Ólafsdóttir myndlistarmaður, hafi verið mikið með sér í búðinni fyrr á árum. Hún er með opið eftir hádegi virka daga og hefur lokað um helgar.
Soffía telur að áhugi á handavinnu hafi síst minnkað. Viðskiptin gangi hins vegar upp og niður, heldur hafi dregið úr síðustu árin og þó sérstaklega á síðasta ári. "Mér finnst konur ekki hafa eins mikla peninga nú til dags," segir hún. Þá telur hún að aukið atvinnuleysi á Suðurnesjum eigi þátt í samdrættinum, margir hafi orðið fyrir uppsögnum.
Það er mikið til sama fólkið sem kemur aftur og aftur í búðina til Soffíu, mest konur úr Reykjanesbæ og nærliggjandi stöðum eins og Garði, Sandgerði og jafnvel úr Grindavík. Þá er það ekki alveg óþekkt að karmenn reki inn nefið. Soffía segist vita til þess að einstaka maður sé að prjóna sokka og svo komi fyrir að þeir komi til að kaupa garn í fluguhnýtingu.
Soffía segir að konurnar vilji ekki að hún hætti með verslunina. "Þær segjast ekki nenna að fara til Reykjavíkur eftir einhverju smálegu og svo er líka orðið lítið um handavinnubúðir í Reykjavík," segir hún.
Þótt stundum sé lítið að gera við verslunarstörfin kvartar Soffía ekki undan aðgerðarleysi. Hún er með vinnustofu inn af búðinni og þar ver hún lausum stundum til að mála myndir. Hún hefur haft það að áhugamáli nánast jafnlengi og verslunarreksturinn.
"Eiríkur Smith listmálari kenndi okkur í Baðstofunni í tólf ár. Við höfðum haft ýmsa ágæta kennara áður en ég lærði mest hjá Eiríki," segir Soffía.
Vatnslitakassinn er opinn á vinnustofunni inni af búðinni enda segir Soffía að handhægast sé að grípa í vatnslitapenslana. "Olíulitirnir eru líka skemmtilegir en þá verður maður helst að hafa lokað vegna óþrifnaðarins sem fylgir þeim."Annars segist hún vera gjörn á að prófa nýtt. Nefnir sem dæmi klippimyndir sem hún hefur verið dugleg við að gera. Segir að þær séu skemmtilegar enda dugi þá ekki að hugsa um fyrirmyndir heldur verði hún að hugsa verkið sjálf frá grunni. Hún segist alltaf selja eina og eina mynd.