Fannar Þorbjörnsson virðist hissa á einhverju þar sem hann er með boltann.
Fannar Þorbjörnsson virðist hissa á einhverju þar sem hann er með boltann.
ÍR-INGAR gefa ekkert eftir í baráttunni um efstu sætin í Esso-deild karla í handknattleik. Í gærkvöldi lögðu þeir Framara 23:24 í Framheimilinu og endurtóku þar með leikinn frá því liðin mættust í fyrri umferðinni fyrir fjórum mánuðum, þá vann ÍR líka með einu marki, 25:24. ÍR skaust í annað sætið með sigrinum en Fram er sem fyrr í sjöunda sæti, tveimur stigum á undan FH sem á leik til góða.

Leikmenn virtust nokkuð taugatrekktir í upphafi leiks, mikið um mistök og óþarfa pústra manna á milli, en sem betur fer bráði óþolinmæðin af mönnum og úr varð ágætur leikur - alltént spennandi leikur. Spennan náði hámarki undir lokin. ÍR jafnaði þegar ein og hálf mínúta var eftir og þegar hálf mínúta var eftir varði Hreiðar Guðmundsson, markvörður liðsins, skot Framara og ÍR tók leikhlé og lagt var á ráðin. Niðurstaðan var að láta boltann ganga smástund og fara síðan inn úr hægra horninu. Það gerði Ragnar Helgason þegar fimm sekúndur voru eftir og Héðinn Gilsson braut á honum. Héðni var vikið af velli og vítakast réttilega dæmt. Sturla Ásgeirsson, fyrirliði ÍR, fór á línuna og til varnar var fyrirliði Fram, Sebastían Alexandersson. Fyrirliði ÍR hafði betur og tryggði liði sínu sigur.

Heimamenn hófu leikinn betur en gestirnir og gerðu fyrstu tvö mörkin en Breiðhyltingar gáfust ekki upp, léku ágæta 3-2-1 vörn og náðu að jafna 3:3 og síðan var jafnt á öllum tölum upp í 7:7 en heimamenn þó alltaf með frumkvæðið. Fram komst í 9:7 og 11:9 og það fannst Júlíusi Jónassyni, þjálfara ÍR, nóg og tók leikhlé. Það hafði góð áhrif því liðið gerði næstu þrjú mörk og komst yfir í fyrsta sinn, 11:12, og 13:14, í leikhléi.

Upphaf síðari hálfleiks var svipað og þess fyrri því Fram gerði fyrstu tvö mörkin og spennan hélt áfram allt til loka þar sem liðin skiptust á um forystuna, eitt til tvö mörk.

ÍR komst í 17:20 eftir átján mínútna leik og Framarar skoruðu aðeins eitt mark í 11 sóknum. Síðan kom kafli þar sem allt gekk heimamönnum í hag, ýmsir dómar og tveir útafrekstrar gerðu það að verkum að ÍR-ingar voru einum færri í fjórar mínútur samfellt og það nýttu Framarar sér og jöfnuðu en Hreiðar varði vítakast og bjargaði gestunum þannig. Fram komst samt yfir skömmu síðar, 23:22.

Hjá Fram átti Sebastían ágætan dag í markinu, Guðjón Finnur Drengsson var sprækur í fyrri hálfleik og öruggur á vítalínunni í þeim síðari, leikstjórnandinn Valdimar Þórsson átti fína spretti og Haraldur Þorvarðarson stóð í ströngu á línunni. Þorri Björn Gunnarsson var fínní horninu fyrir hlé en hornin nýttust lítt eftir hlé. Vörn Fram var lengstum ágæt, einn fyrir framan sem truflaði sókn gestanna.

Hjá ÍR var Hreiðar sterkur í markinu, Sturla var sprækur, Ingimundur Ingimundarson, Kristinn Björgúlfsson, Guðlaugur Hauksson og Ólafur Sigurjónsson allir ágætir. Fannar Þorbjörnsson átti erfiðan dag á línunni en gaf þó ekkert eftir þrátt fyrir að fá lítið fyrir sinn snúð.

Tuttugasta tap Selfoss

Leikmenn Aftureldingar luku skylduverki þegar þeir lögðu Selfoss á heimavelli í gærkvöldi, 31:24, og þar með varð 20. tap Selfoss í 21 leik á Íslandsmótinu staðreynd. Viðureignin verður lítt minnisstæð enda var hún frekar illa leikinn, leikmenn voru mistækir og virtust á stundum ekki taka leikinn mjög alvarlega enda spilað upp á fátt annað en stoltið.

Selfyssingar virtust ætla að hrista af sér slyðruorðið í upphafi leiks þegar þeir náðu frumkvæðinu. Heimamenn færðu sig hins vegar fljótlega upp á skaftið, skoruðu hvert markið á fætur öðru eftir hraðaupphlaup og náðu sex marka forskoti, 12:6. Þar með var eins og þeir héldu að björninn væri unninn, en svo reyndist ekki vera. Leikmenn Selfoss bitu frá sér og söxuðu á forskot heimamanna á þeim tíma sem Afturelding gaf yngri leikmönnum tækifæri á að spreyta sig. Leikmenn Selfoss jöfnuðu metin og komust yfir, 15:14.Afturelding jafnaði metin með marki rétt fyrir lok fyrri hálfleiks.

Í upphafi síðari hálfleiks héldu leikmenn Selfoss áfram að berjast af krafti með von um að geta brotið Mosfellinga á bak aftur. Framliggjandi vörn Selfoss-liðsins reyndist leikmönnum Aftureldingar erfið. Selfyssingar náðu tveggja marka forskoti, 20:18. Þar með gyrtu Mosfellingar sig í brók, skoruðu fimm mörk í röð á stuttum kafla. Eftir það rann mótspyrna leikmanna Selfoss út í sandinn og heimamenn sigldu fleyi sínu örugglega í höfn. Getumunur liðanna kom glögglega í ljós á síðasta stundarfjórðungnum.

Gísli Guðmundsson markvörður var besti leikmaður Selfoss í leiknum og frammistaða Harðar Bjarnasonar vakti athygli. Þar er á ferð snjall örvhentur leikmaður.

Reynir Þór Reynisson stóð fyrir sínu í marki Aftureldingar. Jón Andri Finnsson var sterkur eins og svo oft áður og Sverrir Björnsson var drjúgur þrátt fyrir að hafa gert alltof mörg mistök í sókninni.

Skúli Unnar Sveinsson skrifar

Höf.: Skúli Unnar Sveinsson