Í KVÖLD sýnir Sjónvarpið lokaþátt Bráðavaktarinnar eða E.R. eins og hann heitir upp á ensku (sem þýðir Emergency Room). Þættirnir eru komnir á níunda tímabilið sitt ytra en í kvöld verðum við vitni að því er áttunda tímabilinu verður slitið. Allt frá upphafi hafa þættirnir notið gríðarlegra vinsælda, en þeir þykja einstaklega vandaðir, raunsæir, dramatískir og stundum bara sprenghlægilegir. Og efalaust hafa margir lúmskt gaman af oftast óskiljanlegu læknamálinu!
Í síðasta þætti gerðist sá hörmulegi atburður að hinn ljúfmannlegi Mark Greene lést af völdum krabbameins. Nú verður það því í höndum hins sannleikselskandi, en þó fallvalta, John Carter (leikinn af Noah Wyle) að leiða sitt lið áfram.
Einn af þeim sem skópu Bráðavaktina í upphafi er enginn annar en rithöfundurinn Michael Crichton sem efalaust er þekktastur fyrir að hafa skrifað Júragarðinn, en Steven Spielberg gerði sem kunnugt er vinsælar myndir upp úr þeim bókum. Chrichton útskrifaðist á sínum tíma frá læknadeild Harvard en hófst fljótlega handa við skriftir og sló þegar í stað í gegn. Ægivinsældir hans voru slíkar á tímabili að hann átti vinsælustu þættina, myndina og bókina í Bandaríkjunum - allt á sama tíma! Það var hjartaknúsarinn George Clooney sem fór með helstu burðarrulluna í upphafi þáttanna en svo hafa leikarar eins og Eriq LaSalle (Peter Benton) og Anthony Edwards (Mark Greene) verið aufúsugestir í stofum sjónvarpsáhorfenda. Í gegnum þættina hefur aukinheldur runnið hið vænlegasta gestastóð en á meðal þeirra sem fram hafa komið í þáttunum, í skemmri eða lengri tíma eru þau Alan Alda, Sally Field, Kirsten Dunst og William H. Macy.
Bráðavaktin hættir nú um sinn ... en verður alveg ábyggilega opnuð aftur innan tíðar. Þátturinn í kvöld hefst stundvíslega kl. 20.00