Velta Pharmaco með samheitalyfið Citalopram í Svíþjóð gæti jafnvel náð nokkur hundruð milljónum króna, samkvæmt upplýsingum frá Róberti Wessman, forstjóra fyrirtækisins.
Velta Pharmaco með samheitalyfið Citalopram í Svíþjóð gæti jafnvel náð nokkur hundruð milljónum króna, samkvæmt upplýsingum frá Róberti Wessman, forstjóra fyrirtækisins.
HJÁ Pharmaco hf. er unnið að því að koma á fót skrifstofu í Svíþjóð og er stefnt að því að hún taki til starfa á þessu ári.

HJÁ Pharmaco hf. er unnið að því að koma á fót skrifstofu í Svíþjóð og er stefnt að því að hún taki til starfa á þessu ári. Róbert Wessman, forstjóri Pharmaco, segir að þetta tengist því að sænska lyfjaeftirlitið hafi nýlega samþykkt markaðsleyfisumsóknir fyrir samheitalyf frá fjórum markaðsaðilum af þunglyndislyfi danska lyfjarisans Lundbeck, Cipramil. Þar á meðal sé lyfið Citalopram, sem dótturfyrirtæki Pharmaco í Danmörku, United Nordic Pharma, hefur fengið samþykki sænska lyfjaeftirlitsins fyrir. Það var hins vegar annað dótturfyrirtæki Pharmaco, Omega Farma, sem þróaði Citalopram á sínum tíma.

Að sögn Róberts er veltan með Cipramil í Svíþjóð um fimm milljarðar íslenskra króna á ári. Hann segir að ef vel takist til megi gera ráð fyrir að Pharmaco geti jafnvel náð nokkur hundruð milljóna króna veltu með samheitalyfið Citalopram.

Reynt að stöðva framleiðslu Citalopram

Töluvert hefur verið fjallað í dönskum fjölmiðlum að undanförnu um tilraunir danska lyfjarisans Lundbeck til að halda samheitalyfjafyrirtækjum eins og Pharmaco frá markaði. Frumlyfjaframleiðendur eins og Lundbeck fá 20 ára einkaleyfavernd til að standa straum af þróunarkostnaði og til að ná ávöxtun á fjármuni sem settir eru í þróun. Að þeim tíma liðnum er heimilt að selja samheitalyf, þ.e. lyf sem sýnt hefur verið fram á að hafi sömu virkni og uppfyllir sömu gæðakröfur og frumlyfið.

Róbert segir að lyfjaverð lækki ávallt þegar samheitalyf kemur á markað auk þess sem frumlyf tapi þá markaðshlutdeild. Það sé því klár hagur neytenda að á markað komi samheitalyf um leið og einkaleyfi viðkomandi frumlyfs rennur út.

"Tekjur Lundbeck koma fyrst og fremst frá þessu eina lyfi, Cipramil," segir Róbert. "Fyrirtækið hefur því gripið til þess ráðs að fara fram á lögbann vegna sölu samheitalyfsins og lögsótt alla þá aðila sem selja citalopram frá Pharmaco í þeirri von að seinka því ferli að samheitalyfið komist á markað. Lundbeck reyndi að stöðva innkomu Citaloprams frá Pharmaco árið 2000 þegar fyrirtækið keypti eina hráefnabirgja Omega Farma, ítalska fyrirtækið VIS. Með þessu var ætlunin að seinka innkomu samheitalyfsins á meðan Lundbeck markaðssetti nýja útgáfu af Cipramil, sem þeir kalla Cipralex. Þróun á Cipralex var hins veger sein fyrir auk þess sem Pharmaco tókst að ná inn nýjum hráefnabirgja, fyrirtækinu Matrix á Indlandi. Þetta varð hins vegar til þess að seinka markaðsetningu Omega Farma á samheitalyfinu um nokkra mánuði."

Íslenskt hugvit stenst samkeppnina

Danska blaðið Börsen sagði frá því fyrir skemmstu að Lundbeck hefði verið heimilað seint á síðasta ári að gera úttekt á Matrix, hráefnabirgja Pharmaco. Hópur manna frá Lundbeck, ásamt hlutlausum matsmönnum, tók út framleiðsluferlana hjá Matrix. Niðurstaða úttektarinnar var á þá leið að Matrix væri ekki að brjóta á einkaleyfum Lundbeck.

Róbert segir að eftir heimsókn eftirlitsmannanna til Matrix, svo og eftir að lögbannskröfu Lundbeck hafi verið vísað frá m.a. í Þýskalandi, Hollandi, Spáni, Noregi, Finnlandi og Bretlandi, megi segja að Lundbeck sé að tapa slagnum við samheitalyfjafyrirtækin sem selja Citalopram frá Pharmaco.

Börsen og Jyllands-Posten hafa greint frá því að Lundbeck hafi boðið Matrix 300 milljónir danskra króna fyrir að hætta að selja hráefnið sem Pharmaco notar í framleiðslu á citalopram töflum. Haft er eftir Asbjörn Abrahamsen af þessu tilefni í Börsen, en hann er forstjóri norska samheitalyfjafyrirtækisins Ratiopharm, að möguleikar Lundbeck á að koma í veg fyrir framleiðslu á samheitalyfjum jafngildum Cipramil séu eftir þetta úti.

Róbert Wessman segir að slagurinn við Lundbeck sýni hversu mikilvægt sé að staðið sé vel að þróun samheitalyfja. Þetta sýni einnig hvernig íslenskt hugvit geti staðist samkeppni við alþjóðleg lyfjafyrirtæki eins og Lundbeck.