EVRÓPUMEISTARAR Frakklands taka þátt í fyrsta alþjóðlega kvennaskákmótinu sem haldið verður hér á landi 5. til 9. mars næstkomandi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Mótið er haldið af Taflfélagi Garðabæjar og nýstofnuðu Skákfélagi Grindavíkur.

EVRÓPUMEISTARAR Frakklands taka þátt í fyrsta alþjóðlega kvennaskákmótinu sem haldið verður hér á landi 5. til 9. mars næstkomandi í Saltfisksetrinu í Grindavík. Mótið er haldið af Taflfélagi Garðabæjar og nýstofnuðu Skákfélagi Grindavíkur.

"Blautasta mót ársins"

"Þetta verður annarsvegar landskeppni þriggja þjóða, Íslands, Noregs og Frakklands, en samhliða verður haldið annað mót, þar sem við bætist karlasveit skipuð fulltrúum Taflfélags Garðabæjar og Skákfélags Grindavíkur," segir Jóhann Ragnarsson, formaður undirbúningsnefndar mótsins.

Verðlaunaafhending fer fram sunnudaginn 9. mars kl. 16 í Bláa lóninu og að henni lokinni fer fram hraðskákarkeppni sömu sveita ofan í lóninu. "Ég hef ekki þorað að auglýsa þetta sem blautasta mót ársins," segir Jóhann og hlær. "En ég held þetta sé fyrsta mótið í vatni hér á landi. Ég veit að svona mót hafa verið haldin erlendis, s.s. í Ungverjalandi."

Framtíðarlandslið Frakka

Taflfélag Garðabæjar og Skáksamband Frakklands hafa, að sögn Jóhanns, verið í miklu samstarfi undanfarin þrjú ár. "Þeir leggja mikla áhersla á mótið sem þátt í uppbyggingarstarfi hjá sér og senda framtíðarlandslið sitt á mótið," segir Jóhann. "Við höfum tvisvar áður verið með mót fyrir sömu landslið á Netinu, árið 2001 og 2002, þannig að það var rökrétt framhald að fá liðin hingað."

Sterkasti skákmaður mótsins er á fyrsta borði hjá Frökkum, Karelle Bolon, með 2162 Elo-stig, en hún er 16 ára.

Valið hefur verið í íslenska landsliðið fyrir mótið, þó borðaröðin hafi ekki verið ákveðin. Í liðinu verða Íslandsmeistarinn Guðlaug Þorsteinsdóttir, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Anna Björg Þorgrímsdóttir, Áslaug Kristjánsdóttir, Harpa Ingólfsdóttir og Aldís Lárusdóttir.

Ekki tapað í 15 ár

Franska landsliðið kom á óvart með því að vinna Evrópukeppnina í Leon á Spáni fyrir tveimur árum, að sögn Jóhanns, og hafa einstakir liðsmenn þess fylgt því eftir með góðri frammistöðu á mótum. Tvær konur sem keppa á mótinu eru í Taflfélagi Garðabæjar, önnur er Guðlaug Þorsteinsdóttir og hin Sylvia Johnsen úr norska liðinu. Þær keppa báðar fyrir Taflfélagið á Íslandsmóti skákfélaga um helgina.

"Það eru nú fáir sem geta státað af því eins og Guðlaug að hafa ekki tapað langri keppnisskák í fimmtán ár," segir Jóhann. "Hún tók sér þrettán ára hlé og hefur ekki tapað síðan hún byrjaði aftur og raunar aðeins gert eitt jafntefli. Það var í landskeppni Íslands og Katalóníu."