"Eðlilegt að nota staðla um lágmarkskröfur."

HINN 17. febrúar sl. lagði dómsmálaráðherra fyrir Alþingi frumvarp til laga þar sem lagðar eru til breytingar á menntunarkröfum lögmanna. Frumvarpið gerir áskilnað um fimm ára nám í lögfræði án þess að nokkrar efniskröfur séu gerðar til inntaks þeirrar lögfræðimenntunar sem til þarf til þess að geta orðið lögmaður. Frumvarpið felur í sér grundvallarbreytingar frá núgildandi lögum.

Í dag er boðið upp á laganám við nokkra háskóla hér á landi sem er mjög ólíkt að efnisinntaki og er það auðvitað hið besta mál. Ólíkar þarfir, sem námi er ætlað að mæta, kalla eðlilega á ólíkar áherslur um uppbyggingu náms.

En hvaða nám þurfa verðandi lögmenn að stunda til þess að vera vel í stakk búnir til þess að rækja lögmannsstörf? Á Norðurlöndum hefur námi fyrir verðandi dómara og lögmenn annars vegar verið skipt upp í nám í kjarnafögum sem tekur u.þ.b. þrjú ár og öllum laganemum er skylt að taka, og hins vegar í nám í valfögum sem tekur u.þ.b. tvö ár þar sem nemendum gefst færi á að sérhæfa sig á ýmsum sviðum. Uppbygging laganáms í háskólum sem ætlað er að undirbúa nemendur undir lögmannsstörf á Norðurlöndum er frábrugðin lögfræðinámi, sem boðið er upp á við viðskiptaháskóla og aðra skóla, að því er varðar áherslu og kennslumagn í þessum kjarnafögum. Hér að neðan er tafla um kennslu í nokkrum kjarnafögum við Háskóla Íslands, Háskólann í Kaupmannahöfn og Háskólann í Reykjavík. Einvörðungu er getið um kennslumagn í þeim greinum sem nemendum er skylt að taka. Við alla skólana er hægt að læra meira í sumum þessara greina séu þær valdar sem valfög.

Þótt kennslumagn sé hvorki fullkominn né nákvæmur mælikvarði veitir framangreindur samanburður þó glögga sýn á þær ólíku áherslur sem þessir skólar veita við kennslu í þessum greinum lögfræðinnar, sem taldar hefur verið hluti kjarnans í námi dómara og lögmanna á Norðurlöndum.

Hér verður áréttuð sú skoðun að æskilegast sé að háskólar verði að mestu látnir sjá um menntun lögmanna hér á landi eins og tíðkast hefur á Norðurlöndum, en ekki sérskóli sem við tekur eftir háskólanám. Það getur ekki talist þjóðhagslega hagkvæmt að fyrst eyði nemendur 5 árum í háskólanám í lögfræði og þurfi síðan að bæta við sérnámi í 1-2 ár á námskeiðum eða sérstökum lögmannsskóla. Til þess að hjá þessu verði komist þarf að skilgreina með staðli eða á annan almennan hátt þær lágmarksmenntunarkröfur sem gerðar eru til þeirra sem vilja öðlast lögmannsréttindi. Á þann hátt gefst öllum háskólum jafnt tækifæri, sem vilja taka að sér að mennta verðandi lögmenn, til að koma til móts við þær kröfur með skipulagi náms og kennslu. Með slíku fyrirkomulagi mun það einnig liggja í augum uppi fyrir nemendur hvaða fög þeir þurfi að velja, eða eftir atvikum bæta við sig, til þess að uppfylla áskildar menntunarkröfur lögmanna.

Hér er ekki verið að leggja til að staðla allt laganám. Þvert á móti. Eftirspurn á markaði mun án efa móta námsframboð háskóla. Þegar kemur hins vegar að menntunarkröfum dómara og lögmanna er um að ræða svið þar sem nauðsynlegt er að tilgreina lágmarksmenntunarkröfur til að stuðla að réttaröryggi almennings. Til þess að tryggja jafnrétti skóla og nemenda í samkeppnisumhverfi er eðlilegt að nota staðla um lágmarkskröfur á þessu sviði eins og gert er á öðrum sviðum þar sem samkeppnin dafnar.

Eftir Pál Hreinsson

Höfundur er varadeildarforseti lagadeildar HÍ.

Höf.: Pál Hreinsson