ATVINNUVANDI háskólamenntaðs fólks hefur farið stigvaxandi og hafa aldrei verið jafnmargir háskólamenntaðir atvinnulausir. Röskva hefur sýnt frumkvæði í þessu máli og ályktaði nú fyrir stuttu um aukið atvinnuleysi meðal þeirra.
Efling Atvinnu- miðstöðvar stúdenta
Meðal þess sem Röskva vill gera til að sporna við auknu atvinnuleysi meðal ungs háskólamenntaðs fólks, er að efla Atvinnumiðstöð stúdenta. Fyrst og fremst þarf að tryggja fjárhag Atvinnumiðstöðvarinnar. Takist að tryggja fjárhaginn, er hægt að fjölga starfsmönnum og efla með því starfsemina og þjónustu við stúdenta. Öflugri Atvinnumiðstöð getur farið í átak meðal fyrirtækja í að kynna Atvinnumiðstöðina og sérstöðu hennar. Hægt væri að bjóða upp á persónulega ráðgjöf fyrir stúdenta um hvernig best er að vinna umsóknir og undirbúa sig undir starfsviðtöl. Röskva vill einnig koma á fót verkefnamiðlun undir Atvinnumiðstöðinni. Fyrirtæki gætu leitað til slíkrar miðlunar til að láta stúdenta vinna fyrir sig tiltekin verkefni.
Nýsköpunarsjóðurinn
Margir stúdentar sækja ár hvert um styrk til Nýsköpunarsjóðs námsmanna. Umsóknir eru aldrei jafnmargar og þegar atvinnuástand er slæmt. Ein þeirra leiða sem Röskva vill leita til að auka atvinnumöguleika stúdenta er efla Nýsköpunarsjóðinn með auknu fjármagni. Þá gætu fleiri stúdentar fengið styrk og unnið á sumrin að verkefnum sem oftar en ekki eru tengd námi þeirra.
Samstarf við Impru
Stúdentaráð, undir forystu Röskvu, tók upp samstarf við Impru. Impra veitir sprotafyrirtækjum ýmiss konar aðstoð við að komast á legg. Slíkt gæti hentað vel ungu fólki sem hefur áhuga á að stofna fyrirtæki. Með samstarfi Impru og Stúdentaráðs mætti til dæmis bjóða upp á kynningu á starfsemi Impru fyrir stúdenta og þeim veittur afsláttur á námskeið á vegum Impru.
Stúdentar komi vel undirbúnir á atvinnumarkað
Röskva leggur einnig áherslu á að stúdentar séu vel undirbúnir fyrir þátttöku á vinnumarkaðinum, hvort heldur sem um sumarvinnu eða framtíðarvinnu er að ræða. Í þessum tilgangi vill Röskva að haldnir verði kynningarfundir fyrir stúdenta þar sem rætt yrði um réttindi þeirra, vinnutíma, meðallaun í þeirra starfsstétt og hvað æskilegt sé að óska eftir í byrjunarlaun. Fundir með svipuðu sniði er nokkuð sem hefur verið reynt í verkfræðideild og gefist vel þar.Að loknu námi og í sumarleyfum fara stúdentar út á atvinnumarkaðinn. Því þarf að hlúa vel að málum tengdum atvinnu stúdenta. Eins og ástandið er nú þurfa stúdentar að rísa upp og grípa til aðgerða.
Eftir Ölmu Ýr Ingólfsdóttur
Höfundur skipar 2. sæti á lista Röskvu til Stúdentaráðs.