HRINGURINN byrjar á atriði sem minnir á vinsælar unglingahrollvekjur en reynist blessunarlega laus við ódýru einkennin sem eru vörumerki slíkra mynda. Engin fjöldaslátrun né blóðstokknar persónur hræðandi áhorfandann með blikandi eggvopnum, holskurðum og ámóta kliskjukenndum kryddefnum. Kvikmyndagerðarmennirnir róa á áhrifaríkari mið draugasögunnar, í smiðju japanskra kollega sinna þar sem Hringurinn er Hollywood-endurgerð Ringu, magnaðrar hryllingsmyndar frá 1997 og hefur verið fáanleg á íslenskum myndbandaleigum í nokkur ár.
Fyrrgreint upphafsatriði segir af vinkonunum Katie (Amber Tamblyn) og Beccu (Rachael Bella). Katie tjáir Beccu frá óþægilegri reynslu sem hún upplifði viku áður, er hún leigði ásamt vinum sínum dularfullt myndband sem reyndist innihalda torkennilega atburði. Að sýningu lokinni hringdi síminn þar sem áhorfendunum var tjáð að þeir ættu sjö daga ólifaða. Og dagar Katie eru taldir. Hún er myrt á voveiflegan hátt en Becca gengur af vitinu.
Blaðakonan Rachel (Naomi Watts) tekur að sér rannsókn málsins þar sem fórnarlambið er í fjölskyldunni. Hún kemst að því að vinir Katie eru allir dánir og létust á nákvæmlega sama tíma og hún. Rachel finnur myndbandið, horfir á það og síminn hringir ...
Nú hefst kapphlaup við tímann, Rachel reynir að bjarga lífi sínu með því að fá botn í þau skilaboð sem eru á spólunni og nýtur hjálpar Noah (Martin Henderson), barnsföður síns. Rannsóknin leiðir þau til afskekktrar eyju utan við Seattle þar sem óhugnanlegir atburðir liggja í loftinu.
Ekki er rétt að ræna væntanlega bíógesti spennunni með frekari upprifjun þessarar nútímaútgáfu uppvakningarsögu en óhætt að fullyrða að öfugt við þjóðsögurnar okkar er lítil vitglóra í fléttunni. Áhorfendum er haldið við efnið með myndrænu, ískyggilegu áreiti sem stigmagnast fram að skelfilegu atriði sem fær hárin til að rísa. Myndin er í kuldalegum grátónum og grænleitum litum sem minna á Særingarmanninn (The Exorcist). Í ofanálag gerist Hringurinn að mestu leyti í þungbúnum rigningarbeljanda sem eykur enn á ónotin. Líkt og í Norninni í Blair (The Blair Witch Project) er það myndbandsupptaka sem er uppspretta óhugnaðarins og læðist að manni sá grunur að höfundar hennar hafi þjófstolið hugmyndinni frá japönunum. Hringurinn er ólíkt magnaðri og þéttari en myndin af norninni í Blair, prýdd góðum leik Watts (Mulholland-tröð), Hendersons og sterkri innkomu aukaleikaranna Brians Cox og Jane Alexanders. Kvikmyndatakan er stílhrein og áhrifarík og tónlist Hans Zimmer eykur á undirliggjandi óhugnað kuldahrollsins.
Því miður stenst Hringurinn ekki nærskoðun, öfugt við Náðargáfuna (The Gift) og Hina (The Others), tvær framúrskarandi hrollvekjur frá síðustu árum. Þegar upp er staðið kemur í ljós að framvindan er órökrétt og margir lausir endar ófrágengnir. Hringnum fyrirgefst í skjóli myrkra leyndardóma og frumlegra og fagmannlegra atriða sem sitja í beinunum er maður heldur út í myrkt febrúarkvöldið. Einkum er minnisstæður stigmagnaður tryllingur í hesti sem fælist um borð í ferju sem flytur Rachel til eyjunnar, á vit örlaga sinna.
Sæbjörn Valdimarsson