LANDSVIRKJUN hefur ákveðið að hefja þegar í stað framhaldsviðræður við Norðurál um orkuöflun vegna stækkunar álversins á Grundartanga þar sem hún telur að arðsemi af breyttri Norðlingaölduveitu sé nægjanleg við fyrstu sýn. Forstjóri Landsvirkjunar telur að ef allt gangi eftir eigi að vera hægt að byrja að afhenda Norðuráli raforku í lok árs 2005 og að fullum afköstum verði náð í upphafi ársins 2006.
Viðræðum Landsvirkjunar við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja, sem koma að verkefninu með Landsvirkjun, verður haldið áfram og gera menn sér vonir um að flýta megi útboðum þannig að verklegar framkvæmdir geti hafist þegar á þessu ári.
Norðurálsmenn telja að með yfirlýsingu Landsvirkjunar hafi náðst mikilvægur áfangi í átt til þess að stækkað álver með 180 þúsund tonna ársframleiðslu verði að veruleika og að nú muni félagið hefja að leita eftir samningum um fjármögnun stækkunarinnar sem kosta mun um 25 milljarða króna.
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra segir yfirlýsingu Landsvirkjunar jákvæða og hún staðfesti jafnframt að úrskurður Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra, um breytingar á Norðlingaölduveitu hafi verið réttur. Ráðherra hyggst kynna tvö frumvörp á ríkisstjórnarfundi í vikunni þannig að hægt verði að afgreiða þau fyrir þinglok í næsta mánuði. Forstjórar Orkuveitunnar og Hitaveitu Suðurnesja telja sig geta staðið við sinn hluta af samkomulagi um raforkuöflunina með Landsvirkjun.
Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir að vandlega hafi verið farið yfir úrskurð Jóns og fyrirtækið hafi fundið fyrir miklum stuðningi og ánægju með úrskurðinn. Landsvirkjun vilji finna hagstæðustu útfærsluna á grundvelli úrskurðarins. "Okkar markmið er fyrst og fremst að halda okkur utan friðlandsins."
Allar líkur á að framkvæmdir geti hafist í haust
Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra telur allar líkur á að framkvæmdir við stækkun álvers Norðuráls geti hafist strax í haust enda sé það mikilvægt vegna annarra stóriðjuverkefna.Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Norðuráls, segir fyrstu niðurstöður Landsvirkjunar jákvæðar. "Þetta þýðir að við getum farið að leita í fullri alvöru eftir samningum um fjármögnun stækkunarinnar og sölu aukinnar framleiðslu. Ég geri ráð fyrir að endanleg mynd verði komin á þetta eftir fjóra til sex mánuði."