HANS Blix, yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak, sagði í gær að stjórnvöld í Bagdad hefðu á síðustu dögum sýnt verulega bættan samstarfsvilja með því að leggja fram mikilvæg gögn um vopnaáætlanir sínar.

HANS Blix, yfirmaður vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna í Írak, sagði í gær að stjórnvöld í Bagdad hefðu á síðustu dögum sýnt verulega bættan samstarfsvilja með því að leggja fram mikilvæg gögn um vopnaáætlanir sínar. Engin skýr svör hefðu hins vegar enn fengizt við kröfunni um eyðingu Al Samoud 2-eldflauga íraska hersins.

Að sögn Blix hafa Írakar sent vopnaeftirlitsmönnum ný bréf og í þeim sé að finna "nokkur jákvæð atriði sem nauðsynlegt er að kanna nánar". Þar á meðal að svokölluð R-400-sprengja, fyllt vökva, hefði fundizt á stað sem vitað er að Írakar hefðu áður notað til að eyða efnavopnum.

Tareq Aziz, varaforsætisráðherra Íraks, staðhæfði að Íraksstjórn hefði enn ekki tekið ákvörðun um hvort orðið yrði við kröfum vopnaeftirlitsmanna um eyðingu eldflauganna. Þessi staðhæfing var þó í ósamræmi við orð sem Saddam Hussein Íraksforseti lét falla í sjónvarpsviðtali sem sýnt verður á bandarísku CBS-stöðinni í dag.

Írakar eru enn að framleiða og prófa Al Samoud 2-flaugarnar, eftir því sem Hiro Ueki, talsmaður vopnaeftirlitsmanna, lét hafa eftir sér.

Annar talsmaður Íraksstjórnar, Amer al-Saadi hershöfðingi, sagði að samstarfið um afvopnunarmálin hefði tekið áþreifanlegum framförum.

"Eitt lokatækifæri enn"

George Bush Bandaríkjaforseti lét sér í gær fátt finnast um yfirlýsingar Íraka um bætt samstarf við fulltrúa SÞ. Hann sagðist búast við því að Saddam Hussein myndi "einu sinni enn reyna að villa um fyrir heiminum" með því að opinbera upplýsingar um vopnaeign sem hann hefði áður neitað að ráða yfir. Brezki forsætisráðherrann Tony Blair sagði í ræðu á þingi að Írakar hefðu "eitt lokatækifæri enn" til að afvopnast með friðsamlegum hætti.

Bagdad, Sameinuðu þjóðunum. AP.

Höf.: Bagdad, Sameinuðu þjóðunum. AP