Eftir stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga yrði framleiðslugeta verksmiðjunnar 180 þúsund tonn.
Eftir stækkun álvers Norðuráls á Grundartanga yrði framleiðslugeta verksmiðjunnar 180 þúsund tonn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
LANDSVIRKJUN telur arðsemi af breyttri Norðlingaölduveitu, eins og hún var lögð upp í úrskurði setts umhverfisráðherra, nægjanlega miðað við fyrstu skoðun á úrskurðinum.

LANDSVIRKJUN telur arðsemi af breyttri Norðlingaölduveitu, eins og hún var lögð upp í úrskurði setts umhverfisráðherra, nægjanlega miðað við fyrstu skoðun á úrskurðinum. Hefur því verið ákveðið að hefja strax framhaldsviðræður við Norðurál um orkuöflun vegna stækkunar álversins á Grundartanga úr 90 í 180 þúsund tonn.

Jafnframt halda áfram viðræður við Orkuveitu Reykjavíkur og Hitaveitu Suðurnesja þar sem ætlunin er að orkuöflunin verði samstarfsverkefni orkufyrirtækjanna þriggja. Þess er vænst að flýta megi útboðum þannig að verklegar framkvæmdir geti hafist þegar á þessu ári. Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, telur að ef allt gangi eftir eigi að vera hægt að byrja afhendingu orku til Norðuráls í lok árs 2005 og fullum afköstum verði náð í upphafi ársins 2006.

Landsvirkjun sendi í gær frá sér tilkynningu um málið þar sem fram kemur að fyrstu niðurstöður á úrskurði setts umhverfisráðherra um Norðlingaölduveitu séu jákvæðar með tilliti til arðsemi verkefnisins. Í tilkynningunni segir að mikilvægt sé að flýta þessum framkvæmdum eins og kostur sé, til að hægt verði að dreifa fyrirhuguðum stóriðjuverkefnum og koma í veg fyrir of mikið framkvæmdaálag á árunum 2005 og 2006. Vegna breytinga sem gera þurfi á veitunni í samræmi við úrskurð setts umhverfisráðherra, Jóns Kristjánssonar, sé nauðsynlegt að frekari rannsóknir eigi sér stað í sumar. Í úrskurðinum var einkum kveðið á um að uppistöðulón færi út úr friðlýstu svæði Þjórsárvera og gerð var tillaga um lónhæð í 566 metra yfir sjávarmáli. Samkvæmt því færi flatarmál lónsins úr tæpum 30 ferkílómetrum niður í um þrjá ferkílómetra. Í úrskurðinum heimilaði Jón einnig gerð setlóns undir jökli austan Arnarfells með miðlun vatns í Þjórsárlón og tilheyrandi leiðigörðum, stíflum og skurðum.

Landsvirkjun ekki bundin af lóni í 566 metra hæð yfir sjó

Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, segir við Morgunblaðið að vandlega hafi verið farið yfir úrskurð Jóns Kristjánssonar um verulega breytta útfærslu á Norðlindaölduveitu. Fyrirtækið hafi fundið fyrir miklum stuðningi og ánægju með úrskurðinn. Hann leggur áherslu á að Landsvirkjun vilji finna hagstæðustu útfærsluna á grundvelli úrskurðarins og minnir á að fyrirtækið sé ekki bundið af tillögu Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen, VST, um lónhæð í 566 mys. Landsvirkjun sé aðeins bundin af því að fara með lónið út fyrir friðlýsta svæðið og því geti lónhæðin farið í allt að 568,5 metra. Þetta eigi eftir að ákveða nánar eftir frekari rannsóknir, m.a. á því hvar stíflustæðið og veituleiðir eigi að koma.

"Okkar markmið er fyrst og fremst að halda okkur utan friðlandsins, í samræmi við úrskurðinn," segir Friðrik en Landsvirkjun mun á næstunni einnig eiga viðræður við Umhverfisstofnun og heimamenn um skipulagsmál og fleiri þætti.

Landsvirkjun og Norðurál undirrituðu viljayfirlýsingu í ágúst sl. um að unnið yrði að orkuöflun vegna áforma um stækkun álversins í tveimur áföngum, fyrst úr 90 þúsund tonna ársframleiðslu í 180 þúsund tonn og síðan upp í 240 þúsund tonna álver. Reiknað var með að Landsvirkjun myndi útvega orku sem svarar til 70 MW afls í fyrri áfanga, Orkuveita Reykjavíkur 40 MW og Hitaveita Suðurnesja 40 MW. Með úrskurði setts umhverfisráðherra gæti vantað upp á 10-15 MW hjá Landsvirkjun sem þyrfti að fá annars staðar.

Mikilvægt að byrja á þessu ári

Friðrik segir að vegna mats á umhverfisáhrifum Norðlingaölduveitu hafi málið tafist en nú verði þess freistað að flýta framkvæmdum eins og mögulegt er. Ef samningar náist á grundvelli viðræðna og fyrrnefndrar viljayfirlýsingar segir Friðrik að framkvæmdir geti jafnvel hafist þegar á þessu ári við vissa verkþætti. Það sé í raun mikilvægt til að koma í veg fyrir of mikið framkvæmdaálag í lok árs 2005 og í byrjun ársins 2006 vegna Kárahnjúkavirkjunar og álvers Alcoa í Reyðarfirði. Óhjákvæmilega verði þó töluvert um að vera um einhvern tíma.

"Við höfum rætt um þetta við iðnaðarráðuneytið og sagt að við viljum gjarnan koma til móts við óskir Norðuráls og grípa til aðgerða til að flýta framkvæmdum. Meðal annars væri mögulega hægt að flýta útboðum sem kæmi að gagni. Hin orkufyrirtækin þurfa einnig á sínum undirbúningstíma að halda vegna rannsóknaborana. Fyrir þau skiptir miklu að endanleg ákvörðun liggi fyrir sem allra fyrst," segir Friðrik en þetta mál verður m.a. lagt fyrir stjórnir Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur á fundum þeirra í næstu viku og stjórn Hitaveitu Suðurnesja í lok þessarar viku.

Aðspurður telur Friðrik að Landsvirkjun, ásamt öðrum orkufyrirtækjum, eigi að geta byrjað að afhenda Norðuráli orku seint á árinu 2005, ef allt gangi eftir. Snemma árs 2006 eigi stækkað álver að hafa náð fullum afköstum.

Spurður um hvaða framkvæmdir Landsvirkjun gæti ráðist í á árinu segir Friðrik að finna þurfi gangaleið úr uppistöðulóninu yfir í veiturnar sem renna síðan í Þórisvatn. Einfaldari framkvæmdir verði við setlónið sem geti hafist síðar á þessu ári, ef tími vinnist til að bjóða út verkin.

"Staðan í dag er sú að í stað þess að bíða og láta rannsóknir fara fram fyrst, sem hefði stefnt framkvæmdunum í hættu, er hugmyndin að fara rækilega ofan í það á næstu dögum hvort ekki næst samkomulag á milli aðila. Þrátt fyrir að rannsóknir fari fram í sumar þá teljum við að útreikningar, sem nú liggja fyrir, bendi eindregið til þess að framkvæmdin sé arðsöm með tillliti til allra þeirra skilyrða sem settur umhverfisráðherra lagði fram," segir Friðrik Sophusson.