Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir með marki Jónasar Rafns Stefánssonar. Sló það heimamenn nokkuð út af laginu en á stuttum kafla undir lok fyrsta leikhluta kom Kenny Corp SA yfir með tveimur mörkum. Í þeim næsta sótti SR meira en vörn SA og markvörður áttu ekki í teljandi vandræðum. Um miðjan leikhlutann komu tvö mörk frá SA. Hið fyrra skoraði Sigurður Sveinn Sigurðsson mjög auðveldlega eftir að Kenny Corp hafði upp á sitt einsdæmi tætt SR-vörnina í sundur. Stefán Hrafnsson komst svo einn í gegn skömmu síðar og skoraði af harðfylgi. Staðan var því 4:1 er síðasti leikhlutinn hófst og bjuggust flestir við því að leikmenn SR yrðu nú teknir í bakaríið. Sú varð þó ekki raunin. Peter Bolin, þjálfari SR, minnkaði muninn en Stefán Hrafnsson svaraði um hæl. Það var svo Ingvar Þór Jónsson sem skoraði síðasta mark leiksins fyrir SR, 5:3.
Eins og fyrr sagði þá var leikurinn óvenju bragðdaufur. SA-liðið spilaði mjög skynsamlega og lagði grunninn að sigrinum með þéttum varnarleik og hröðum sóknum. Kenny Corp var hreint frábær á köflum en SR-strákarnir réðu ekkert við hraða hans. Sigurður Sveinn var traustur sem fyrr og ungu strákarnir stóðu sig mjög vel. Birgir Örn Sveinsson var öryggið uppmálað í markinu og virtist hafa lítið fyrir því að verja skot SR-manna. Úr röðum SR voru Ingvar Þór og Peter Bolin mest áberandi og Gunnlaugur Björnsson markvörður stóð sig vel.
Annar leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni í Laugardal annað kvöld og sá þriðji verður á Akureyri á laugardaginn. Þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.
Einar Sigtryggsson skrifar