Rúnar Rúnarsson, Sigurður Sigurðsson og Kenny Corp úr SA fagna marki Sigurðar sem Kenny lagði upp á meistaralegan hátt.
Rúnar Rúnarsson, Sigurður Sigurðsson og Kenny Corp úr SA fagna marki Sigurðar sem Kenny lagði upp á meistaralegan hátt.
FYRSTI leikurinn í úrslitakeppni Íslandsmótsins í íshokkí fór fram á Akureyri í gærkvöldi. Þar sigraði SA lið SR 5:3 í fremur bragðdaufum leik. Mikið jafnræði var með liðunum allan leikinn en leikmönnum SA tókst að skapa sér betri færi. Eftir þennan fyrsta leik má reikna með því að baráttan um Íslandsmeistaratitilinn verði hörð þetta árið því yfirburðir SA eru ekki þeir sömu og oft áður.

Gestirnir byrjuðu betur og komust yfir með marki Jónasar Rafns Stefánssonar. Sló það heimamenn nokkuð út af laginu en á stuttum kafla undir lok fyrsta leikhluta kom Kenny Corp SA yfir með tveimur mörkum. Í þeim næsta sótti SR meira en vörn SA og markvörður áttu ekki í teljandi vandræðum. Um miðjan leikhlutann komu tvö mörk frá SA. Hið fyrra skoraði Sigurður Sveinn Sigurðsson mjög auðveldlega eftir að Kenny Corp hafði upp á sitt einsdæmi tætt SR-vörnina í sundur. Stefán Hrafnsson komst svo einn í gegn skömmu síðar og skoraði af harðfylgi. Staðan var því 4:1 er síðasti leikhlutinn hófst og bjuggust flestir við því að leikmenn SR yrðu nú teknir í bakaríið. Sú varð þó ekki raunin. Peter Bolin, þjálfari SR, minnkaði muninn en Stefán Hrafnsson svaraði um hæl. Það var svo Ingvar Þór Jónsson sem skoraði síðasta mark leiksins fyrir SR, 5:3.

Eins og fyrr sagði þá var leikurinn óvenju bragðdaufur. SA-liðið spilaði mjög skynsamlega og lagði grunninn að sigrinum með þéttum varnarleik og hröðum sóknum. Kenny Corp var hreint frábær á köflum en SR-strákarnir réðu ekkert við hraða hans. Sigurður Sveinn var traustur sem fyrr og ungu strákarnir stóðu sig mjög vel. Birgir Örn Sveinsson var öryggið uppmálað í markinu og virtist hafa lítið fyrir því að verja skot SR-manna. Úr röðum SR voru Ingvar Þór og Peter Bolin mest áberandi og Gunnlaugur Björnsson markvörður stóð sig vel.

Annar leikur liðanna fer fram í Skautahöllinni í Laugardal annað kvöld og sá þriðji verður á Akureyri á laugardaginn. Þrjá sigra þarf til að tryggja sér Íslandsmeistaratitilinn.

Einar Sigtryggsson skrifar

Höf.: Einar Sigtryggsson