NOKKUÐ hefur verið ritað hérna á síðum Morgunblaðsins um varðveislu á gömlum bátum. Þann 3.2. nýverið birtist grein með fyrirsögninni "er "Gullmolinn" kannski kolamoli".

NOKKUÐ hefur verið ritað hérna á síðum Morgunblaðsins um varðveislu á gömlum bátum. Þann 3.2. nýverið birtist grein með fyrirsögninni "er "Gullmolinn" kannski kolamoli". Furðulegt viðhorf birtist í greininni frá manni sem er "áhugamaður um varðveislu sjóminja", um það hvort réttlætanlegt væri að varðveita skip og báta sem ekki eru smíðuð hérna á Íslandi. Tilefni þess bréfs sem birtist var að í umræðunni er að varðveita eigi mb. Baldur GK 97, sem "áhugamaðurinn" sagði að væri best geymdur sem líkan á safni Duus, ástæða, jú, hann er ekki smíðaður á Íslandi. Ég er alveg sammála því að varðveita eigi mb. Baldur GK, því mb. Baldur GK er mjög merkilegur bátur, hann var smíðaður 1961 í Svíþjóð eftir teikningum Egils Þorfinnssonar, hann var búinn að leggja mikla vinnu í að teikna þennan bát. Byggingarlag bátsins vakti strax athygli enda var mb. Baldur GK (sem þá var Baldur KE 97) var frambyggður og var hann einn af þeim fyrstu á landinu til að koma frambyggður. Mér telst svo til að mb. Björgvin EA 75 hafi verið fyrstur enn hann kom árið 1960. Í Sjómannablaðinu Víkingi, 4. tbl. 1961, er grein um mb. Baldur KE og þar er meðal annars sagt. "Skapast við þetta mjög bætt vinnuskilyrði miðað við hið venjulega byggingarlag, þar sem þilfarið er samfellt frá stýrishúsi og aftur í skut. Nýtist þilfarið því mun betur en ella, og stýrishúsið veitir auk þess mikið skjól við vinnuna."

Þessi tilhögun og teikning virtist ganga vel enda var 1963 smíðaður mb. Hólmar GK 546 og var svo til eins og Baldur KE nema hvað að hann var smíðaður í Njarðvík, sem sé íslensk smíði. Fimm árum síðar kemur svo annar bátur sem er í meginatriðum eins og Baldur KE nema hvað að brúin er stærri en það var mb. Glaður KE 67. Undanfarin ár er ég búinn að vera að safna aflatölum frá öllu landinu frá síðustu öld og þar hef ég tekið eftir því, að frá þeim tíma sem Baldur KE kom til landsins hefur hann verið með aflahærri eða aflahæstur báta með dragnót ár eftir ár.

Í dag er mjög lítið orðið eftir af trébátum í rekstri og er það miður enda hefur mér fundist gömlu bátarnir margir hverjir mjög fallegir, margir þessara báta liggja núna í höfnum landsins öllum til ama og engum til gagns, en allir eiga þeir sameiginlegt að allir hafa þeir sögu á bak við sig, sumir hafa lent í sjávarháska, aðrir komið drekkhlaðnir af þorski eða síld.

Ég hef mikinn áhuga á að skrifa og grennslast fyrir um sögu báta og sérstaklega aflabrögð þeirra, en ef á að varðveita bát eins og mb. Baldur þá þarf að ganga þannig frá málum að hann skemmist ekki eins og t.d Kútter Sigurfari var farinn að gera.

Hver bátur hefur sína sál og sögu.

GÍSLI REYNISSON,

Sléttahrauni 29, 220 Hafnarfirði.

Frá Gísla Reynissyni:

Höf.: Gísla Reynissyni