VIÐSKIPTASIÐFERÐI Flugleiða hefur verið til umtals í Bréfum til blaðsins. Hinn 18/2 skrifuðu Rúnar Sig. Bergsson og Jóhann Guðmundsson í sambandi við kaup á farmiða til Baltimore.

VIÐSKIPTASIÐFERÐI Flugleiða hefur verið til umtals í Bréfum til blaðsins. Hinn 18/2 skrifuðu Rúnar Sig. Bergsson og Jóhann Guðmundsson í sambandi við kaup á farmiða til Baltimore.

Síðastliðið sumar keypti ég farmiða hjá Flugleiðum til Svalbarða í Noregi með millilendingu í Oslo og Tromsö og til baka.

Þar sem ég vildi hafa vaðið fyrir neðan mig hafði ég tímanlega samband við Flugleiðir til að athuga með far. Um það bil 7 vikum fyrir fyrirhugaða brottför fæ ég senda ferðaáætlun og þær upplýsingar frá þjónustufulltrúa að verð farmiðans sé 57.820, flug, skattar og gjöld innifalin. Ég þurfi hins vegar að gista í Osló þar sem allt kvöldflug samdægurs með Braathens til Longyearbyen sé uppbókað á því viku tímabili sem til greina kom. Jafnframt fæ ég að vita að ganga verði frá sölu miðas fljótlega þar sem mikið sé bókað. Tveim dögum seinna bóka ég far frá Keflavík hinn 10. júlí og geng frá kaupum daginn eftir. Vart er ég búin að leggja tólið frá mér þegar fyrgreindur þjónustufulltrúi hringir og afsakar að því miður sé verðið ekki 57.820 krónur, heldur 72.570, eða 14.750 krónum hærra, hvort ég vilji halda fast við bókunina. Ákörðunin hafði verið tekin, auk þess sem mér fannst ég vera að brenna á tíma og greiðsla upp á 72.570 er skuldfærð 6 vikum fyrir brottför.

Þar sem fjölskyldurmeðlimur var að velta fyrir sér að fara á svipuðum tíma læt ég hann vita að það sé ekki seinna vænna að taka ákvörðun, allt tengiflug frá Osló sé að verða fullbókað. Það er svo ekki fyrr en í byrjun júlí að hann kaupir farmiða á Netinu, en þá horfa málin öðru vísi við. Hann fékk far sömu leið og ég hinn 12. júlí eða tveim dögum seinna og kostaði farið þá 56.730, auk þess sem nú var hægt að komast samdægurs alla leið.

Áður en ég fór spurðist ég fyrir hverju þessari hækkun á mínum miða sætti og var mér tjáð að það væru skattar, núgildandi verð farmiðans væri orðið mun hærra. Á farmiðanum kemur hins vegar fram að skattarnir eru 4.730 (fyrir Keflavík- Osló) + 1.940 (Osló - Tromsö - Longyearbyen) eða samtals 6.670 krónur. Þegar ég síðan spurði hvers vegna ég hefði fengið það svar rúmum mánuði fyrr að útilokað væri að komast samdægurs alla leið, var svarið að sennilega hefði eitthvað losnað af sætum.

Ekki veit ég hvernig Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi Flugleiða, útskýrir þessa viðskiptahætti. Með útsölu eða árstíðabundinni sölu vara eins og hann gerði í svari sínu til þeirra Rúnars og Jóhanns hinn 20. febrúar? Er hægt að selja vöru á útsölu sem ekki er lengur til að eigin sögn? Síðan hef ég leitað allra annarra leiða en Flugleiða, en Flugleiðir ávarpa viðskiptavini sína við lendingu: Thank you for choosing Icelandair. Því miður höfum við hér ekki mikið val.

SIGRÚN JÓNSDÓTTIR,

myndlistarkennari,

Freyjugötu 25, Reykjavík.

Frá Sigrúnu Jónsdóttur:

Höf.: Sigrúnu Jónsdóttur