Vel fer á með þingmönnum, stundum á þingi en alltaf í þingveislum.
Vel fer á með þingmönnum, stundum á þingi en alltaf í þingveislum.
Þingveisla var haldin fyrir skemmstu, en þá falla flokksmúrarnir og þingmenn allra flokka skemmta sér í fyllsta bróðerni.

Þingveisla var haldin fyrir skemmstu, en þá falla flokksmúrarnir og þingmenn allra flokka skemmta sér í fyllsta bróðerni. Ræðuhöld eru bönnuð nema í bundnu máli og jafnvel það er skilyrðum bundið, eins og sést á eftirfarandi broti úr inngangsorðum Halldórs Blöndals, forseta Alþingis, sem beitti fyrir sig fornyrðislagi.

Orða hjör

er allra vopna

hvassastur

þeim sem höggstór er.

Undan málörvum

megi aldregi

und blæða

svo eigi batni.

Salomónsdómur Jóns Kristjánssonar varð mörgum yrkisefni. Þjórsárverin eru griðland heiðagæsarinnar og lagði Steingrímur J. Sigfússon út af því:

Jón er með sínum gæsum glaður

gerði það sem honum bar.

Hann er orðinn heilagur maður

að hlífa því sem friðað var.

Jón svaraði því um hæl:

Vísuna ég mikils met,

maðurinn er natinn,

ég gæti jafnvel gæsaket

gefið þér í matinn.

Sem Steingrímur svaraði:

Ýmsum sverfur sultur að

Salomón um þetta kvað,

en þó þú bróðir bjóðir vel

ég betri á lífi gæsir tel.

Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir var ánægð með framboð Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur flokkssystur sinnar.

Davíð nú í mörgu mæðist

milljörðum hann bætti í sjóðinn.

Ingibjörgu ákaft hræðist

af því að hana velur þjóðin.

Halldór Blöndal svaraði að bragði:

Dimmir úti, dauft er blandað, daprast ljóðin,

Ásta Ragnheiður orðin þjóðin.

Valgarður Egilsson, læknir og eiginmaður Katrínar Fjeldsted, lætur ekki síður í sér heyra en þingmennirnir. Hann rifjaði upp 230 ára gamla minningu og orti til Ástríðar Thorarensen, eiginkonu Davíðs Oddssonar, sem komin er af Þórarni Thorarensen, sýslumanni á Grund. Hann ku hafa verið 17 ára þegar hann barnaði unga stúlku á Grenivík, síðar formóður Valgarðs:

Þórarinn reið með þýðan gang

þar hafð'ann stutta áning

á Grenivík barnað'ann langa lang

langömmu mína táning.

Að síðustu er hér vísa Valgarðs um frammámann í viðskiptalífinu sem grenntist:

Losnar mikið lýsi og spik

lafir á huppi strengur.

Bókin selst en brókin helst

bar'ekki uppi lengur.