Það er athyglisverð niðurstaða sem Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, kemst að í grein um byggingu Náttúrufræðihúss HÍ í Vatnsmýrinni.

Það er athyglisverð niðurstaða sem Ragnar Árnason, hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, kemst að í grein um byggingu Náttúrufræðihúss HÍ í Vatnsmýrinni. Segir hann að uppsafnaður umframkostnaður vegna tafa við byggingu hússins nemi 280 milljónum króna á verðlagi þessa árs.

Þrátt fyrir að búið sé að verja 1,2 milljörðum króna í byggingu hússins á átta árum er það enn ófrágengið. Stefnt er að því að ljúka byggingunni á þessu ári og er áætlað að hún kosti fullbúin 2,2 milljarða króna.

"Ljóst er að dýrkeypt mistök hafa verið gerð við byggingu Náttúrufræðihúss. Jafnframt liggur fyrir, að í höfuðatriðum hafa hinar röngu ákvarðanir verið teknar af Háskóla Íslands," segir Ragnar og bendir á að vandamálið liggi tæpast í upplýsingaskorti eða vanþekkingu.

Ég sat sjálfur í háskólaráði þegar þessi mál voru til umræðu og get fullyrt að athygli var vakin á því hversu óráðlegt það væri að hefja byggingaframkvæmdir áður en fjármögnun væri tryggð." Hann bendir á að starfsmenn HÍ séu allir ríkisstarfsmenn með trygga ráðningarsamninga. Engin dæmi séu um það að stjórnendur skólans og aðrir starfsmenn gjaldi þess í starfi eða launum að eiga hlut að þjóðhagslega skaðvænlegum ákvörðunum. Raunar skipti einnig litlu máli fyrir starfsmenn þegar vel er staðið að málum.

Til samanburðar tók 16 ár að byggja Þjóðarbókhlöðuna en aðeins eitt ár að reisa nýtt og fullkomið hús Íslenskrar erfðagreiningar, við hlið Náttúrufræðihússins. Hús ÍE er um helmingi stærra, um 15 þúsund fermetrar, en byggingarkostnaður álíka hár og áætlað er fyrir Náttúrufræðihús. Þetta setur stórt spurningamerki við ákvarðanir Háskólans og undirbúning framkvæmda.

Í erindi sem Gunnlaugur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Þróunarsviðs hjá Íslenskum aðalverktökum, hélt á sínum tíma um framkvæmdir við Náttúrufræðihús, segir hann að engin samkeppni hafi verið um hönnun hússins, kröfur útboðsgagna hafi verið óskýrar, verktími ekki ljós og allt ferlið þarfnist naflaskoðunar. Sem dæmi megi nefna að hver og einn gluggi á framhlið hússins sé sérsmíðaður í Danmörku, en gluggarnir eru nokkur hundruð.

Kennir Háskólinn framkvæmdamönnum framtíðarinnar að fara þannig að?