Það er vissulega ánægjulegt að Landsvirkjun hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmt verði fyrir fyrirtækið að byggja Norðlingaölduveitu á niðurstöðum Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra.

Það er vissulega ánægjulegt að Landsvirkjun hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að hagkvæmt verði fyrir fyrirtækið að byggja Norðlingaölduveitu á niðurstöðum Jóns Kristjánssonar, setts umhverfisráðherra. Þegar úrskurður ráðherrans var birtur komu fram vissar efasemdir af hálfu Landsvirkjunar um að svo breytt framkvæmd skilaði fyrirtækinu nægilegri arðsemi. Eftir skoðun hefur Landsvirkjun nú ákveðið að ráðast í þessa framkvæmd á forsendum Jóns Kristjánssonar.

Í samræmi við það mun Landsvirkjun nú hefja framhaldsviðræður við Norðurál um orkuöflun vegna stækkunar álversins á Grundartanga. Af hálfu Landsvirkjunar verður lögð áherzla á að flýta þessum framkvæmdum þannig að hægt verði að dreifa stóriðjuverkefnum og koma í veg fyrir of mikið framkvæmdaálag á árunum 2005 og 2006.

Í samtali við Morgunblaðið í dag segir Valgerður Sverrisdóttir iðnaðarráðherra að allar líkur séu á að framkvæmdir við stækkun álversins á Grundartanga geti hafizt í haust.

Í samtali við fréttavef Morgunblaðsins í gær sagði Ragnar Guðmundsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Norðuráls, m.a.:

"Þetta þýðir að við getum farið að leita í fullri alvöru eftir samningum um fjármögnun stækkunarinnar og sölu aukinnar framleiðslu. Ég geri ráð fyrir að endanleg mynd verði komin á þetta eftir fjóra til sex mánuði. Að þeim tíma loknum ætti að vera hægt að taka endanlega ákvörðun um stækkunina. Þetta er hins vegar mjög mikilvægur áfangi í því að koma málinu vel áfram."

Ferill þessa máls er afar lærdómsríkur fyrir okkur Íslendinga. Í sérstakri skoðun á vegum Jóns Kristjánssonar kemur skyndilega í ljós að annarra kosta er völ við gerð Norðlingaölduveitu en fram að því hafði verið talið. Úrskurður hans skapaði víðtæka samstöðu meðal landsmanna, þar sem áður hafði stefnt í sundrung og mikil átök. Í stað áframhaldandi deilna mun þorri landsmanna fagna þeim framkvæmdum, sem nú standa fyrir dyrum og mun eiga ríkan þátt í að lyfta þjóðarbúskapnum upp úr ákveðnum öldudal, sem hann hefur verið í undanfarin tvö ár, þótt því megi ekki gleyma að við höfum séð það svartara.

Þessi framvinda mála sýnir, að sé nógu mikil áherzla lögð á að finna lausnir í ágreiningsmálum, sem deilur hafa staðið um, getur það tekizt.

Þá er það athyglisvert í þessu máli, að bæði Orkuveita Reykjavíkur og Hitaveita Suðurnesja koma að því að tryggja nægilega orku fyrir stækkað álver á Grundartanga. Orkuöflun í þessu skyni verður samstarfsverkefni fyrirtækjanna tveggja og Landsvirkjunar. Það sýnir að hér eru að rísa upp fleiri orkufyrirtæki en Landsvirkjun, sem geta komið við sögu slíkra stórframkvæmda.