SADDAM Hussein Íraksforseti segir Íraka ekki ráða yfir eldflaugum sem dragi lengra en skilmálar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna segja fyrir um.

SADDAM Hussein Íraksforseti segir Íraka ekki ráða yfir eldflaugum sem dragi lengra en skilmálar öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna segja fyrir um. Því hyggist Írakar ekki verða við þeirri kröfu Hans Blix, yfirmanns vopnaeftirlits Sameinuðu þjóðanna, að þeir hefji að eyðileggja eldflaugarnar fyrir næstu helgi. Náinn aðstoðarmaður Íraksforseta sagði þó í gær að enn væri verið að skoða þessa kröfu Sameinuðu þjóðanna.

Saddam Hussein sagði í viðtali við bandaríska sjónvarpsmanninn Dan Rather á mánudag að Írakar ættu þann kost einan að verja hendur sínar þar sem Bandaríkjamenn hefðu ákveðið að láta sverfa til stáls. "Stjórn litla Bush hefur ákveðið að hundsa vilja alþjóðasamfélagsins... og því geta Írakar ekki annað en varið land sitt," sagði Saddam Hussein m.a. í samtalinu við Rather en þetta er fyrsta viðtalið sem hann veitir vestrænum fréttamanni í meira en tíu ár. Rather gerði grein fyrir helstu efnisatriðum viðtalsins í gær og á mánudag en viðtalið verður sýnt í heild á bandarísku CBS-sjónvarpsstöðinni í dag, miðvikudag, í fréttaþættinum 60 Minutes II.

Hussein neitaði því einnig að eldflaugarnar sem deilt er um dragi lengra en kveðið er á um í vopnahlésskilmálum Sameinuðu þjóðanna frá árinu 1991. Þar segir að Írakar megi ekki ráða yfir eldflaugum sem draga lengra en 150 kílómetra. Hans Blix segir hins vegar að flaugarnar, sem eru af gerðinni al-Samoud 2, dragi allt að 190 kílómetra. Því beri Írökum að eyða þeim og hefja það starf fyrir næsta laugardag. "Við eigum ekki eldflaugar sem draga lengra en kveðið er á um," sagði Íraksforseti í viðtalinu.

Helsti vísindaráðgjafi Saddams Husseins sagði hins vegar í samtali við fréttamenn í Bagdad í gær að enn væri verið "að skoða" þessa kröfu Sameinuðu þjóðanna. Írakar hafa látið að því liggja að þeir vilji semja um að eldflaugunum verði breytt og að hugsanlega komi til greina að eyða hluta þeirra.

Erfið staða Íraka

Fréttaskýrendur segja ljóst að eldflaugadeilan muni reynast Írökum erfið mjög. Ákveði þeir að hundsa kröfu vopnaeftirlitsmanna um eyðingu þeirra gefi þeir Bretum og Bandaríkjamönnum tilefni til að halda því fram að Írakar hafi brotið efnislega gegn skilmálum Sameinuðu þjóðanna. Slík brot réttlæti að hervaldi verði beitt samkvæmt ályktun Sameinuðu þjóðanna nr. 1441.

Ákveði Írakar á hinn bóginn að farga eldflaugunum muni það draga úr getu þeirra til að verjast hugsanlegri innrás Bandaríkjamanna og bandamanna þeirra. Eldflaugarnar eru þær langdrægustu sem Írakar eiga og yrði þeim því trúlega beitt á fyrstu stigum átaka. Ekki liggur fyrir hversu margar eldflaugar af gerðinni al-Samoud 2 Írakar eiga en talið er að þær kunni að vera um 100. Þær geta borið 300 kílógramma sprengjuhleðslu en deilt er um drægni þeirra. Írakar halda því fram að eldflaugarnar hafi sumar hverjar reynst draga lengra en 150 klílómetra vegna þess að þær hafi verið reyndar án miðunarbúnaðar og sprengjuhleðslu.

Vill einvígi við Bush

Í viðtalinu við Dan Rather lýsti Saddam Hussein yfir því að hann vildi mæta George W. Bush Bandaríkjaforseta í kappræðu um gervihnött. Þar gætu þeir rætt Íraksmálið og rökstuðning Bandaríkjamanna fyrir nauðsyn þess að farið verði með hernaði gegn Írökum. Heimsbyggðin gæti síðan fylgst með.

Talsmaður Bush Bandaríkjaforseta sagði að áskorun Saddams Husseins væri ekki tekin alvarlega. Engin þörf væri á slíkri rökræðu. "Afvopnun Íraka er það eina sem þörf er á," sagði talsmaðurinn Ari Fleischer.

Bagdad. AFP. AP.

Höf.: Bagdad. AFP. AP