Fundur útvegsmanna á Snæfellsnesi um netastopp var fjölmennur.
Fundur útvegsmanna á Snæfellsnesi um netastopp var fjölmennur.
ÞAÐ var þungt hljóð í útgerðarmönnum á Snæfellsnesi á fundi sem Útvegsmannafélag Snæfellsness boðaði til í Grundarfirði á mánudag. Þar kynntu starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tillögur sínar um netastopp í vetur til verndunar hrygningarfiski.

ÞAÐ var þungt hljóð í útgerðarmönnum á Snæfellsnesi á fundi sem Útvegsmannafélag Snæfellsness boðaði til í Grundarfirði á mánudag. Þar kynntu starfsmenn Hafrannsóknastofnunar tillögur sínar um netastopp í vetur til verndunar hrygningarfiski.

Frá Hafrannsóknastofnun komu Jóhann Sigurjónsson, Björn Ævarr Steinarsson og Sigfús Schopka og Kristján Þórarinsson, fiskfræðingur hjá LÍÚ. Í tillögum Hafrannsóknastofnunar er lagt til að netastopp verði 40 dagar. Netaveiðar verði bannaðar frá 20. mars til 30. apríl. Er hér um mikla lengingu að ræða sem kemur útvegsmönnum á óvart, enda hefur verið gengið út frá sama stoppi og í fyrra.

Fram kom hjá fiskifræðingum að ástand þorskstofnsins væri alvarlegt. Nú er lögð áhersla á að vernda stórþorskinn sem er mikilvægur til að klak takist vel. Miklar umræður urðu á fundinum og var hiti í fundarmönnum. Það var álit þeirra að það sýndi tillitsleysi við útgerð og vinnslu á Snæfellsnesi að koma fram með svo róttækar breytingar innan við mánuði áður en þær eiga að taka gildi. Mönnum fannst sjálfsögð krafa að gefa aðlögunartíma. Nú eru útgerðarmenn búnir að panta net fyrir vertíðina og skipuleggja veiðar til vors. Þá á allt í einu að fara að stoppa í 40 daga. Bátaflotinn á Snæfellsnesi hefur ekki að öðru að hverfa á meðan.

Útvegsmenn og gestir skiptust á skoðunum varðandi verndun þorsksins og voru það fróðlegar umræður, enda búa sjómenn yfir mikilli reynslu sem mætti taka meira tillit til. Það kom fram að stærstu netariðlar veiða stærsta þorskinn og væri fyrsta skref að banna þá og minnka hæð netanna sem hefur verið að aukast. Þá kom fram að netabátum í Breiðafirði hefur fækkað mikið á undanförnum árum og er netafjöldi í Breiðafirði brot af þeim fjölda sem var fyrir nokkrum árum.

Telja tillögurnar koma of seint

Útvegsmenn eru sammála um að tillögur Hafrannsóknastofnunar komi of seint til að þær komi til greina á þessari vertíð. Þeir leggja til að netastoppið nái yfir sama tímabil og í fyrra, sem var þá lengt frá fyrri árum. Til að koma til móts við sjónarmið Hafrannsóknastofnunar um verndun stórþorsks er lagt til að möskvastærðin 9½ tomma og stærri verði bönnuð og takmörkuð dýpt netannna.

Fyrir næstu vertíð eru útvegsmenn til viðræðna við Hafrannsóknastofnun um ráð til að vernda stórþorskinn, því þar spila margir þættir inn í sem vert er að athuga. Fundurinn var einn sá fjölmennasti hjá Útvegsmannafélaginu og sýnir það hvað félagsmenn hafa miklar áhyggjur af því óöryggi sem þeim er boðið upp á að vinna við.