"Nemendur með áhuga á lögmannsstörfum í framtíðinni geti valið á milli skóla."

ALBERT Einstein sagði einhvern tíma að maður með eitt úr vissi ávallt hvað klukkan væri. Maður með tvö úr gæti hins vegar aldrei verið viss. Orð Einsteins hafa komið upp í hugann undanfarna mánuði þegar menn hafa borið saman laganám í Háskóla Íslands og Háskólanum í Reykjavík. Á meðan einungis var boðið upp á laganám í HÍ var takmörkuð opinber umræða um innihald námsins en nú þegar námið er einnig í boði í HR hefur umræðan aukist mjög. Fjölbreytnin og samkeppnin hefur aukist og nemendur hafa nú í fyrsta sinn val um hvar þeir vilja stunda námið. Jafnvel þó að maður með tvö úr geti aldrei alveg verið viss um hvað klukkan er þá er samanburður á öllum sviðum hollur, ögrandi og einungis til þess fallinn að skila betri árangri.

Að undanförnu hefur umræðan um laganám á Íslandi aðallega snúist um frumvarp til breytinga á lögum um lögmenn, sem nýlega var lagt fram á Alþingi. Spurningunni um það hvort gildandi lög tryggi á fullnægjandi hátt þær kröfur, sem rétt sé að gera til lögfræðimenntunar, hefur verið velt upp og fram hefur komið að hvergi í lögum sé að finna skilgreiningu á því hvernig haga skuli lögfræðimenntun. Telja ýmsir að rétt sé að skilgreina innihald námsins áður en háskólar geti sett á stofn lagadeildir sem hafi heimild til að útskrifa lögfræðinga. Bent hefur verið á mikilvægi lögmanna og dómara fyrir réttaröryggi almennings og má skilja umræðuna svo að það kunni jafnvel að vera varasamt fyrir íslenskt samfélag ef hinum og þessum háskólum verður heimilað að útskrifa lögfræðinga, sem geti orðið lögmenn eða dómarar, án þess að fyrst verði settar almennar efnisreglur um inntak laganáms. Þessu er ég ósammála því að gildandi lögmanna- og háskólalög og þær breytingatillögur sem gerðar eru í fyrirliggjandi frumvarpi til breytinga á lögmannalögum tryggja að fullnægjandi kröfur séu gerðar til menntunar lögmanna.

Í fyrsta lagi er ljóst að samkvæmt gildandi lögmannalögum þurfa einstaklingar sem hafa lokið lögfræðiprófi að ,,standast prófraun" sem nánar er kveðið á um í lögunum. Því dugar ekki að hafa lokið fullgildu lögfræðinámi. Ekki stendur til að breyta þessu fyrirkomulagi í fyrirliggjandi frumvarpi. Sérstök þriggja manna prófnefnd, skipuð af dómsmálaráðherra, er starfandi en hlutverk hennar er að ákveða hvers kyns prófraun einstaklingar með lagapróf þurfi að standast áður en þeir öðlast lögmannsréttindi. Prófraunin skal ná til þeirra greina bóknáms og verkmenntunar sem helst varða rækslu lögmannsstarfa. Sett hefur verið reglugerð þar sem nánar er kveðið á um námsgreinar, námskeiðahald, framkvæmd prófraunar og lágmarksárangur til að standast hana. Með þessu fyrirkomulagi hefur löggjafinn sett ákveðinn öryggisventil sem á að tryggja að enginn einstaklingur geti orðið lögmaður sem hefur ekki sannanlega hlotið til þess ákveðna lágmarksþjálfun og menntun. Sambærilegur öryggisventill hefur verið settur fyrir dómara en sérstakri dómnefnd, sem skipuð er af dómsmálaráðherra, er ætlað að fjalla um hæfni umsækjenda um embætti héraðsdómara. Á þetta fyrirkomulag að stuðla að því að þeir einstaklingar sem veljast til dómarastarfa séu til þess hæfir. Þetta fyrirkomulag við skipun dómara stuðlar að því að til dómarastarfa veljist einungis hæfir einstaklingar, burtséð frá því úr hvaða skóla þeir luku lagaprófi.

Í öðru lagi tryggir frumvarpið til breytinga á lögmannalögum, verði það að lögum, að allir einstaklingar sem fá heimild til að gangast undir fyrrgreinda prófraun hafi fengið menntun í svokölluðum ,,kjarnafögum" lögfræðinnar. Í frumvarpinu segir m.a. að einstaklingar þurfi að hafa lokið ,,fullnaðarprófi" í lögfræði til þess að geta öðlast lögmannsréttindi. Í athugasemdum með frumvarpinu kemur fram að með orðunum ,,fullnaðarnám" í lögfræði sé meðal annars litið til þess að lögmenn þurfi að hafa öðlast þekkingu á helstu grunngreinum lögfræðinnar, svo sem réttarheimildafræði og lögskýringum, kröfurétti, skaðabótarétti, refsirétti og réttarfari. Af þessum ummælum er ljóst að nú þegar hefur verið tilgreint hvaða efniskjarna laganám þarf að lágmarki að hafa til þess að teljast vera ,,fullnaðarnám" í skilningi umrædds ákvæðis. Hugsanlegt er að einhver sé þeirrar skoðunar að skilgreina þurfi þetta nánar og að jafnvel sé nauðsynlegt að skilgreina umfang og efni náms í fyrrgreindum kjarnagreinum lögfræðinnar. Þannig hefur verið bent á að í sumum skólum sé sama námsefni kennt á skemmri tíma og með færri kennslustundum eða jafnvel að allt annað kennsluefni sé notað. Það er hins vegar hvorki æskilegt né raunhæft að setja fram nákvæma útfærslu á því hvaða námsefni í einstökum kjarnagreinum er kennt, hvernig það sé kennt eða á hversu löngum tíma. Veita þarf lagadeildum einstakra háskóla svigrúm til þess að móta sitt námsefni og ákveða hversu mörgum kennslustundum skuli varið í einstakar námsgreinar og hvernig kennslufyrirkomulag skuli vera. Annað fyrirkomulag kynni að leiða til stöðnunar og koma í veg fyrir jákvæð áhrif þess að hafa fleiri en einn háskóla sem býður upp á fullgilt laganám. Þess má geta að víða erlendis er svokallað kjarnanám kennt á mun skemmri tíma en hér á landi, án þess að slíkt hafi verið talið skerða réttaröryggi almennings á nokkurn hátt eða draga úr samkeppnishæfni námsins í alþjóðlegu samhengi.

Í þriðja lagi er mikilvægt að hafa í huga að gildandi lög um háskóla hafa að geyma reglur sem eiga að tryggja að kennarar í íslenskum háskólum séu starfi sínu vaxnir. Þannig eiga þeir að hafa bæði menntun og reynslu til þess að geta sjálfir tekið ákvarðanir um umfang, kennsluaðferðir og megináherslur helstu námsgreinanna.

Í fjórða lagi er menntamálaráðherra skylt samkvæmt háskólalögum að hafa eftirlit með gæðum menntunar sem einstakir háskólar veita og hafa almennar reglur verið settar um eftirlit með gæðum kennslunnar, hæfni kennara og hvernig ytra gæðaeftirliti skuli háttað í einstökum háskólum.

Hér hef ég nefnt fjóra þætti sem leiða til þess að innihald laganáms fyrir lögmenn og dómara er nægilega vel tryggt í núgildandi lögum og með frumvarpi dómsmálaráðherra til breytinga á lögmannalögum. Því eru engin rök fyrir því að stöðva framgang frumvarpsins. Það felur í reynd fyrst og fremst í sér þá breytingu að nemendur sem áhuga hafa á því að stunda lögmannsstörf í framtíðinni geti valið á milli skóla.

Eftir Aðalstein E. Jónasson

Höfundur er hæstaréttarlögmaður og lektor við lagadeild Háskólans í Reykjavík.

Höf.: Aðalstein E. Jónasson