Valsstúlkan Eygló Jónsdóttir tekur á Gerðu Betu Jóhannsdóttur, leikmanni Víkings.
Valsstúlkan Eygló Jónsdóttir tekur á Gerðu Betu Jóhannsdóttur, leikmanni Víkings.
VÍKINGSSTÚLKUR uppskáru ríkulega í Víkinni í gærkvöldi þegar þær fengu Val í heimsókn. Jafnræði var með liðunum fyrstu mínúturnar en síðan héldu Víkingar áfram að reyna komast í gang og tókst það á meðan gestirnir frá Hlíðarenda koðnuðu niður. Úrslitin voru því alveg í samræmi við leikinn, tólf marka sigur - 28:16. Á Seltjarnarnesi unnu nýbakaðir bikarmeistarar Hauka öruggan 28:21 sigur á Gróttu/KR og á Akureyri hafði FH betur gegn KA/Þór, 27:21.

Sókn Víkinga var ekki burðug fyrstu mínúturnar en uppskar þó fimm mörk úr fimm sóknum. Valsstúlkum voru hinsvegar mislagðar hendur, ekkert gekk upp í sókninni og vörnin illa á verði. Svo skildu leiðir þegar Víkingar börðust fyrir hverjum bolta, reyndu ákaft að finna fjölina og fundu hana. Sama er ekki hægt að segja um gestina frá Hlíðarenda, sem voru alls ekki með einbeitinguna í lagi og gengi liðsins í samræmi við það enda munaði tíu mörkum í leikhléi, 16:6. Á fyrstu mínútu eftir hlé komust Víkingar í 13 marka forystu en leyfðu sér þá að slaka örlítið á. Nógu mikið til að Valsstúlkur skoruðu þrjú mörk í röð en Víkingum reyndist auðvelt að ná aftur öllum völdum á vellinum. Áfram héldu þær baráttunni og voru oft reknar af velli en það sló ekkert á baráttuna.

"Við áttum alls ekki von á þessu," sagði Guðrún Hólmgeirsdóttir eftir leikinn en hún skoraði 7 mörk Víkinga, mörg hver úr erfiðum færum. "Við höfum ekki spilað nógu góða vörn uppá síðkastið og því verið að ströggla í undanförnum leikjum en núna small hún saman og við náðum að keyra á þær. Það er munurinn frá síðasta leik og þá fylgir góð markvarsla og hraðaupphlaupin," bætti Guðrún við og leit raunsæjum augum á framtíðina. "Nú verðum við að gleyma þessum leik því hann hefur enginn áhrif í næsta. Þá er að duga eða drepast og við verðum að komast niður á jörðina." Flestir leikmanna Víkinga áttu góðan leik. Helga Torfadóttir í markinu varði oft vel, ekki bara auðveldu skotin sem sluppu framhjá vörninni. Fyrirliðinn Helga Birna Brynjólfsdóttir fór fyrir liði sínu, skoraði mörg góð mörk og átti góðar sendingar, sem gáfu mörk. Gerður Beta Jóhannsdóttir var góð eins og Anna Kristín Árnadóttir.

"Það klikkar allt hjá okkur," sagði Hafdís Guðjónsdóttir úr Val eftir leikinn. "Við komumst aldrei í gír. Spilum langt undir getu og þegar vörnin er ekki nógu góð, sem sést best á því að við fáum á okkur sextán mörk fyrir hlé, gengur sóknin heldur ekki upp og allt verður erfiðara. Víkingsstelpur eru miklu grimmari í öllum aðgerðum og við náum aldrei taki á þeim í vörninni. Við vissum hvernig Víkingar kæmu stemmdir til leiks og það kom okkur ekkert á óvart en við vorum ekki með frá byrjun til enda og Víkingar áttu sannarlega sigurinn skilinn fyrir meiri leikgleði og baráttu." Aðeins var hægt að merkja baráttuvilja hjá Berglindi Hansdóttur í markinu og Drífu Skúladóttur, aðrir leikmenn voru ekki alveg með hugann við leikinn og náðu sér ekki á strik.

KA/Þór stóð í FH

Á Akureyri stóð KA/Þór lengi vel í FH og var staðan í leikhléi 15:12 fyrir Hafnfirðinga en eftir hlé náðu þeir að síga framúr. Inga Dís Sigurðardóttir var atkvæðamest hjá KA/Þór með 9 mörk og Ásdís Sigurðardóttir 5 en hjá FH skoraði Björk Ægisdóttir 7 og Sigrún Gilsdóttir sex.

Haukastúlkur náðu strax undirtökunum gegn Gróttu/KR á Seltjarnarnesi. Höfðu 4 til 5 marka forskot, sem fór upp í níu mörk eftir hlé og þar með var björninn unninn. Eva Margrét Kristinsdóttir skoraði 6 af mörkum Gróttu/KR en Hanna G. Stefánsdóttir níu fyrir Hauka.

Stefán Stefánsson skrifar

Höf.: Stefán Stefánsson