* HEIÐAR Helguson lék allan leikinn með Watford sem gerði markalaust jafntefli við Wolves í 1. deild ensku knattspyrnunnar í gærkvöld. Heiðar átti náðugan dag í framlínu Watford því Úlfarnir sóttu nær látlaust.

* HEIÐAR Helguson lék allan leikinn með Watford sem gerði markalaust jafntefli við Wolves í 1. deild ensku knattspyrnunnar í gærkvöld. Heiðar átti náðugan dag í framlínu Watford því Úlfarnir sóttu nær látlaust. Hann náði þó að krækja sér í gult spjald í síðari hálfleiknum.

* FYRIRLIÐAR Fram og ÍR áttust við á lokasekúndum leiks liðanna í 1. deild karla í handknattleik í gærkvöldi. Sturla Ásgeirsson skoraði þá sigurmark ÍR gegn Sebastían Alexanderssyni , markverði Fram . Fyrirliðarnir klæddust báðir treyjum með númerinu 19 á bakinu.

* RUUD van Nistelrooy skoraði sitt 10. mark í meistaradeild Evrópu á þessu tímabili þegar Manchester United vann Juventus , 3:0, í gærkvöld. Það er aðeins tveimur mörkum minna en Hollendingurinn marksækni hefur skorað í ensku úrvalsdeildinni í vetur.

* DIEGO Tristan skoraði sitt fjórða mark á þremur dögum þegar Deportivo La Coruna vann Basel í meistaradeildinni, 1:0. Tristan skoraði þrennu fyrir Deportivo gegn Alavés í spænsku 1. deildinni um helgina.

* MARC Overmars verður ekki með Barcelona þegar spænska liðið mætir Inter frá Mílanó í sannkölluðum stórleik í meistaradeildinni í kvöld. Overmars meiddist á læri í leik Barcelona gegn Real Betis um helgina en ætti að vera tilbúinn á ný um næstu helgi.

* SKOTAR og Tyrkir skildu jafnir, 1:1, í landsleik í knattspyrnu í gærkvöld en báðar þjóðir tefldu fram B-liðum. Berti Vogts , þjálfari Skota, prófaði nokkra leikmenn sem koma til greina gegn Íslandi í lok mars. Andy Gray , leikmaður Bradford City , kom Skotum yfir en Ceyhun Eris jafnaði fyrir heimamenn.

* OTTMAR Hitzfeld , þjálfari þýska liðsins Bayern München , hefur sektað landsliðsmanninn Michael Ballack fyrir að gagnrýna leikaðferð liðsins í viðtali við tímaritið Kicker. Þar segir knattspyrnumaður ársins í Þýskalandi að hann sé ósáttur við hve mikil áhersla sé lögð á varnarleikinn og að hann vilji fá frjálsara hlutverk á miðsvæðinu - og það myndi leiða til þess að hann skoraði fleiri mörk. Ballack hefur beðist velvirðingar á ummælum sínum.

* MORTEN Olsen, landsliðsþjálfari Dana í knattspyrnu, hefur hafnað tilboði frá þýska liðinu Wolfsburg um að gerast þjálfari liðsins. Hann átti að fá 70 millj. ísl. kr. fyrir að skrifa undir samning við liðið. Olsen, sem er samningsbundinn danska knattspyrnusambandinu fram yfir HM í Þýskalandi 2006, segist hafa verk að vinna og hann og leikmenn danska liðsins ætla sér að komast á EM í Portúgal 2004.