ÁSTAND íslenska sumargotssíldarstofnsins er mun betra en áður var talið en í rannsóknaleiðangri fyrr í þessum mánuði mældust um 450 þúsund tonn af stórsíld vestur af Snæfellsnesi.

ÁSTAND íslenska sumargotssíldarstofnsins er mun betra en áður var talið en í rannsóknaleiðangri fyrr í þessum mánuði mældust um 450 þúsund tonn af stórsíld vestur af Snæfellsnesi. Þá gefur mikið magn smásíldar vonir um góða nýliðun veiðistofns á næstu árum.

Síðastliðin tvö ár hefur gengið erfiðlega að meta stærð veiðistofns íslensku síldarinnar, m.a. vegna óvenjulegrar útbreiðslu. Ekki hefur heldur tekist að finna vetursetustöðvar síldarinnar síðastliðin ár og var sú síld sem fannst mjög dreifð. Þá hefur aðalútbreiðslusvæðið færst frá Austfjörðum til svæðisins út af Suðvestur- og Vesturlandi.

Páll Reynisson, fiskifræðingur á Hafrannsóknastofnuninni segir, að í síldarrannsóknum í nóvember og desember á síðasta ári hafi, líkt og árin á undan, fundist lítið af stórsíld. Margir hafi verið uggandi um ástand stofnsins og því verið farinn annar rannsóknaleiðangur fyrr í þessum mánuði til að freista þess að mæla stærð veiðistofnsins. Í leiðangrinum var lögð áhersla á að kanna svæðið frá Suðvesturlandi að Vestfjörðum. Þar hafi fundist mun meira af stórsíld en undanfarin ár. "Við mældum um 450 þúsund tonn af hrygningarsíld í Kolluál. Það er reyndar ekki jafnmikið magn og menn höfðu áætlað út frá endurmælingum og svokallaðri aldursaflagreiningu en þess ber að geta að síldin er dreifð á stóru svæði og því er hér líklega um að ræða lágmarksmælingu. Hún var engu að síður nokkuð veiðanleg, hélt sig í þokkalegum torfum upp í sjó en var aftur á móti stygg með eindæmum."

Páll segir íslenska sumargotssíldarstofninn þannig í þokkalegu ástandi og í góðu meðallagi miðað við síðustu ár. Hann ætti því að geta staðið undir góðri veiði. "Í leiðangrinum í nóvember og desember fannst auk þess töluvert af smásíld fyrir austan land og suður af Eldey. Þar var 1999 árgangurinn mjög áberandi og greinilega yfir meðallagi og ætti að koma inn í veiði eftir tvö ár. Útlitið er því nokkuð bjartara en áður og víst að margir varpa öndinni léttar," segir Páll.