[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
"Skerðing námslána vegna tekna þarf að minnka."

ÁRIÐ 2002 var mikilvægt ár í baráttu stúdenta fyrir bættum lánskjörum. Fulltrúi stúdenta í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna kom úr röðum Vöku í fyrsta skipti í áratug. Vaka sagði í síðustu kosningum að hún myndi fara að samningaborðinu með öðrum hætti en áður hefði verið gert. Árangurinn lét ekki á sér standa. Tekjutenging við maka var afnumin, sem var eitt stærsta skrefið í baráttu fyrir jafnrétti til náms í langan tíma. Jafnframt var grunnframfærsla námslána hækkuð um 8,6%, sem er meira en undanfarin ár. Auk þessa voru skólagjaldalán hækkuð og gerð óháð gengisbreytingum. Þessi árangur sýnir að Vaka er traustsins verð til að sinna þeirri mikilvægu baráttu sem snýr að námslánum og fjárhag stúdenta.

Látum ekki staðar numið

En þrátt fyrir að árangurinn af fyrsta ári Vöku í meirihluta hafi verið góður, má ekki láta staðar numið. Skerðing námslána vegna tekna þarf að minnka enda gefur auga leið að það fólk sem þarf að vinna með námi þarf mest á aukatekjum að halda. Því er ósanngjarnt að refsa fólki með allt of háu skerðingarhlutfalli fyrir slíka sjálfsbjargarviðleitni. Frítekjumark námslána er einnig í algjöru ósamræmi við tekjur námsmanna. Frítekjumarkið er aðeins 280.000 krónur, en námsmaður sem vinnur yfir sumarmánuðina, á lágmarkstekjum, þénar um það bil 375.000 krónur. Ekki má gleyma grunnframfærslu námslána því þótt hún hafi hækkað um 8,6% á síðasta ári, er hún ekki enn í samræmi við raunframfærslu námsmanna.

Lífeyrisréttindi námsmanna

Öflugt málefnastarf hefur verið í Vöku í vetur og komu þar fram ýmsar hugmyndir um hvernig bæta má hag stúdenta. Ein þeirra snýr að lífeyrisréttindum stúdenta. Vaka vill að réttur stúdenta gagnvart lífeyrissjóðum sé tryggður með því að þeir fái ýmist þá fjármuni sem þeir borga í sjóði yfir sumarið greidda út eða geti safnað réttindum í sjóðunum yfir veturinn á þeim forsendum að þeir séu í háskólanámi. Vaka vill einnig að þeir stúdentar sem eiga við veikinda að stríða eigi kost á aukaláni til að mæta auknum lyfja- og lækniskostnaði. Slíkur kostnaður getur orðið stúdentum á námslánum ofviða.

Skýr stefna

Stefna Vöku í lánasjóðsmálum er skýr. Vaka biður um áframhaldandi umboð stúdenta til að halda áfram því starfi sem farið hefur fram í lánasjóðsmálum og tryggja að hagsmunir stúdenta nái fram að ganga. Setjum X við A á kjördag og kjósum áframhaldandi árangur í hagsmunabaráttu stúdenta.

Eftir Sigrúnu Helgu Jóhannsdóttur og Ingunni Guðbrandsdóttur

Sigrún Helga skipar 2. sæti á lista Vöku til Stúdentaráðs og Ingunn situr í Stúdentaráði fyrir Vöku.

Höf.: Sigrúnu Helgu Jóhannsdóttur, Ingunni Guðbrandsdóttur