Kirkjukórar Glaumbæjarsóknar og Sauðárkrókskirkju sungu ásamt Karlakórnum Heimi.
Kirkjukórar Glaumbæjarsóknar og Sauðárkrókskirkju sungu ásamt Karlakórnum Heimi.
Á FIMMTA hundrað gesta troðfyllti félagsheimilið Miðgarð í Skagafirði þegar haldnir voru tónleikar síðastliðinn sunnudag, til minningar um Jón Björnsson tónskáld, bónda og kórstjóra frá Hafsteinsstöðum.

Á FIMMTA hundrað gesta troðfyllti félagsheimilið Miðgarð í Skagafirði þegar haldnir voru tónleikar síðastliðinn sunnudag, til minningar um Jón Björnsson tónskáld, bónda og kórstjóra frá Hafsteinsstöðum. Þann dag voru liðin eitt hundrað ár frá fæðingu hans.

Séra Gísli Gunnarsson í Glaumbæ stjórnaði samkomunni og kynnti þau atriði í tónum og töluðu orði sem fram fóru, en einnig fjallaði hann um æviferil Jóns og öll þau margháttuðu störf sem hann vann að tónlistar- og menningarmálum í Skagafirði.

Kirkjukórar Glaumbæjarprestakalls, og Sauðárkrókskirkju svo og karlakórinn Heimir sungu lög eftir Jón, undir stjórn þeirra Rögnvaldar Valbergssonar og Stefáns R. Gíslasonar, en þessum kórum öllum stjórnaði Jón um árabil auk organistastarfa við kirkjurnar. Þorbergur Jósepsson söng einsöng en dúett þau Þuríður Þorbergsdóttir og Sigfús Pétursson.

Þá fluttu félagar Jóns úr kórunum minningabrot um samvinnuna við hann og með honum, og voru það þeir Sigurjón Tobíasson, Kári Steinsson og Árni Bjarnason sem brugðu upp skemmtilegum svipleiftrum af hinum síunga eldhuga í tónlistinni. Benti Kári Steinsson á þrjá meginþætti í lífshlaupi Jóns Björnssonar. Það var að hann var bóndi og sem slíkur í fremstu röð í Skagafirði. Hann var tónskáld sem eftir liggur mikill fjöldi laga, fleiri en eftir nokkurt skagfirskt tónskáld, og sum laganna perlur sem halda muni nafni hans á lofti um ókomin ár. Síðast en ekki síst var hann organisti og kórstjóri og sagði Kári að enginn mundi lastaður þótt Jón Björnsson væri talinn hafa lagt þar meira fram en flestir aðrir.

Að dagskránni lokinni tók til máls barnabarn Jóns, Sigríður Steinbjörnsdóttir, og þakkaði fyrir hönd aðstandenda Jóns og sérstaklega þeim séra Gísla Gunnarssyni og Stefáni R. Gíslasyni og færði þeim blóm, en því næst sátu tónleikagestir kaffisamsæti í boði sveitarstjórnar.